laugardagur, september 30, 2006

Tíminn flýgur...

Ja hérna hér...á morgun er akkúrat mánuður síðan við héldum af stað frá gamla Fróni...og það sem tíminn hefur liðið hratt ! Við höfum mikið rætt um það hvenær og hvort maður eigi eftir að fá tilfinninguna að HÉR eigum við heima...enn sem komið er erum við alltaf að upplifa eitthvað nýtt og bara það að taka strætó er spennandi ;) Sennilega verðum við enn með þessa túristatilfinningu þegar árið er liðið....

En að öðru...við fórum að skoða annan leikskóla á föstudaginn og sá leikskóli er í sömu götu og við búum í. Okkur leist mjög vel á hann og Elvar sýndi það að hann er í mikilli þörf fyrir félagsskap annarra barna því það var erfitt að ná honum út. Eina sem angraði okkur var aðstaðan, sem okkur finnst ekkert æði og þá sérstaklega garðurinn...sem var eiginlega bara frímerki. En andinn var góður og starfsfólkið vingjarnlegt svo við eiginlega fastsettum að hann myndi koma aftur í heimsókn á mánudaginn. Jæja...sama dag fórum við í smá hjólreiðatúr og nema hvað að við hjólum framhjá leikskóla sem er mjög nálægt og leit mjög vel út...risagarður í kring. Arnar vippaði sér af hjólinu og barði dyra (þrufti að berja nokkuð oft) og kríaði út bækling um starfsemina. Og viti menn...þetta var ódýrara en á hinum og allt saman voða glæsilegt. Þanning að nú vandast málin, við eigum að mæta með Elvar í heimsóknina á mánudag en langar helst að athuga þennan áður....tíminn ekki að vinna með okkur þar því það er hæpið að við náum að hringja í þennan leikskóla og fá að skoða hann fyrir klukkan þrjú á mánudag....Jæja nú lýk ég þessum gríðarspennandi leikskólapistli...fáið að heyra framhaldið síðar...jíhaaaa ;)

Talandi um hjólreiðar...nú blússar maður bara um borgina á nýja fáknum, þvílíkur munur að hjóla á því. Ég er búin að hjóla í skólann og er bara assgoti fljótt að því. Eina sem er nú að angra mann í þessum málum og það er umferðin...svoldið stressandi að hjóla í svona stórborg og í vinstri umferð. Enda þyl ég í huganum "Stay on the left side, stay on the left side" eins og biluð plata. Sem betur fer þarf ég þó ekki að vera á miklum umferðargötum á skólaleiðinni...En ég gerði mikla uppgötvun í miðri left-side þulunni minni...ég uppgötvaði af hverju ég er með dulda hjólafælni ! Það er vegna þess að þegar ég var lítil Þingeyrarpæja og hjólaði um plássið varð mér einu sinni á að hjóla í gegnum nýlagða (leggur maður kannski ekki steypu) steypu ! Ég man þetta eins og hafi gerst í gær...ég brunaði á fullu gasi, minnir að einhver hafi verið að hjóla á eftir mér (kannski einhver af mínum saumó vinkonum..hmmm?) og kem á fullri ferð fyrir hornið á "Kranakjör" ;) ...voru þá ekki Gunnar í Hlíð og einhver annar að dást að blautri steypunni fyrir framan innganginn á búðinni....og ég bruna þar í gegn og skil eftir fallegt far í steypunni :/ Þeir góluðu nú einhver ókvæðisorð á eftir saklausu barninu (mér) og ég er greinilega með komplexa vegna þessa...haha! Hvað skyldi Dr. Phil segja við þessu ?

En nú skal láta staðar numið í bili...ef einhver hefur ráðleggingar vegna þessarar sálgreiningar endilega skellið þeim í kommentin ;) Og já stelpur, ég sendi ykkur e-mail soon...er með skýrslu varðandi verslunarmál ;)

Knús og kosserí
Hjóla-Magga

þriðjudagur, september 26, 2006

"Neighbours, everybody needs good neighbours...."

Í leigusamningnum okkar frá ALBA leigumiðluninni er alveg spes klausa um nágrannaást, um að rækta "healthy relationship with your neighbour". Pffff...það hnussaði nú í okkur íslendingunum yfir svoleiðis vitleysu, svona á milli þessum við hlógum yfir væmninni....talað um að það væri nú sniðugt að bjóða nágrönnunum í partí, ef maður ætlaði að halda slíkt. Því þá yrðu þær kannski ekki eins pirraðir yfir hávaðanum....endalaus fyrirhyggja hér í landi, hehe. Það er nefnilega málið, það er svoldið mikið af fyrirhyggju í gangi hér og kannski smá vantraust á því að fólk hafi eitthvað á milli eyrnanna. Eins og t.d. á einu klósetti sem ég fór á, þar stóð á speglinum : Hot liquid can burn ! Döööööööööööö....

En aftur að nágrönnunum, það var sem sagt lagt áherslu á að kynna sig fyrir nágrönnunum og það var nú búið að humma það fram sér hér á bæ...enda erum við Arnar ekkert fyrir óþarfa mingl við fólk...erum svoldið félagslega bæld, hehe. En jú við ætluðum samt að gera þetta og vorum svo bara assgoti heppin að rekast á konuna sem býr fyrir ofan okkur úti á tröppum. Hjúkkit, sluppum við banka upp hjá henni. Svo rakst Arnar á manninn sem býr á efstu hæðinni og náði svona rétt að kynna sig fyrir honum. Jæja, bankar svo ekki bara fraukan upp á hjá okkur eitt kveldið og býður okkur upp í drykki ! Smá nágrannahittingur...Það þarf nú ekki að taka það fram að félagsfælnin okkar lét á sér kræla ;)

Við höfðum nokkra daga til að láta okkur kvíða fyrir þessu en örkuðum svo upp á næstu hæð í gærkvöld, með hvítvín fyrir gestgjafann... og Elvar Orra (með von um að hann myndi ekki rústa pleisinu á örstundu). Haldiði að þetta reynist svo ekki bara hin huggulegasta kvöldstund! Rachel, sem býr á miðhæðinni bauð upp á hvítvín, osta og snakk og voru þau Andrew (sem býr efst uppi) bara hið indælasta fólk. Þau eru bæði á milli þrítugs og fertugs og búa bæði ein. Við spjölluðum um heima og geima og vorum á endanum farin að tala um draugagang, hehe. Okkur fannst það ágætis merki um að við hefðum náð vel saman þegar Andrew trúði okkur fyrir því að hann hefði þurft að sofa með ljósin kveikt eftir að hafa horft á einhverja hryllingsmynd.

Dagurinn í dag var svo ansi aktívur hjá okkur. Við byrjuðum á því að fara og skoða leikskóla fyrir Elvar Orra og vorum þar í klukkutíma. Þetta er voða krúttlegur lítill leikskóli sem vinnur eftir Montissori-stefnunni og Elvar fékkst varla til að yfirgefa staðinn eftir þennan klukkutíma. Þessi stefna er líka eins og sniðin fyrir svona hressan mann eins og við eigum því aðaláherslan er á að auka einbeitningu þeirra og hjálpa þeim að örva öll sín skilningarvit. Einnig virðast þau vinna á góðan hátt eftir einstaklingsmiðaðri markmiðsetningu og við vorum barasta yfir okkur hrifinn. Forstöðukvensan vill endilega fá Elvar sem fyrst og við værum sko alveg til í að láta hann dvelja þarna....eina babbið í bátnum er...og það er nú sæmilega stórt babb, að þetta er ferlega dýrt. Fyrir þrjá tíma á dag fimm daga vikunnar megum við borga 420 pund sem miðað við pundið í dag er á milli 50 og 60þúsund krónur. Og það er nú aðeins meira en fjárhagurinn leyfir. En við örvæntum ekki því við vitum um fleiri leikskóla sem við ætlum a skoða sem eru með viðráðanlegri gjöld.

Eftir heimsóknina strunsuðum við svo um Morningside hverfið sem er næsta hverfi við okkur og ég sá náttúrulega fullt af krúttlegum litlum búðum...kíki í þær seinna. Þarna fundum við líka leikvöll með skemmtilegum leiktækjum og Elvar Orri var sko alveg sáttur við að leika sér þar. Það sló okkur samt aðeins þegar við sáum hann verða svoldið dapran á svip allt í einu. Þegar við spurðum af hverju hann væri leiður hvíslaði hann: Ásdís.... Mömmuhjartað fékk nú alveg sting við þetta...hvernig útskýriðu fyrir rúmlega þriggja ára barni að besta vinkonan sé á Íslandi en hann eigi eftir að kynnast öðrum skemmtilegum krökkum. En sem betur fer þarf ekki mikið til að kæta litla menn og súpermansleikjó virkaði vel í þetta skiptið...þó auðvitað komi hann ekki í stað Ásdísar.

Jæja, ætla að reyna að taka smá þrifaskurk áður en kallinn ber á borð sænskar kjötbollur...nammi namm :P
Knús og koss
Magga

p.s. já ég keypti mér líka hjól í dag :) greinilega annasamur dagur hjá mér. Féll fyrir hjólinu hennar Hildar og barasta splæsti slíku á mig. Finn mikinn mun á bakinu við að sitja á því, annað en á gamla jálkinum mínum. Vill einhver kaupa Icefox hjól...svakalega elegant með leiðinlega gíra...hahaha!

sunnudagur, september 24, 2006

Raindrops lollipops and....

Jámm....ég hefði kannski ekki átt að minna veðurguðina á þetta bölv mitt, uppskar svoleiðis mígildis rigningu í dag ;) En það snerti mig svo sem ekki þar sem ég hékk inni í allan dag og las fyrir tímann á morgun. Er í kúrs um persneska list hjá Prof. Robert Hillenbrand sem er mjög svo fróður um þau mál. Við erum bara 9 í hópnum og hann vill að maður sé virkur í tímum og leggi eitthvað til málanna...obbosí fyrir mig sem er nú ekki mikið fyrir að tala nema ég hafi eitthvað að segja ;) En ég verð vonandi orðin fróðari um þessi mál fljótlega og get farið að segja eitthvað gáfulegt...uuu...vonandi...

Arnar og Elvar fóru með Hildi og kó í Ocean Terminal og skoðuðu skip drottningar; Brittania. Ég þarf að kíkja þangað....heyrist á þeim að það sé áhugavert. Við vorum svo að koma úr mat frá Hildi...dýrindis kjúlli og hvítvín...nammm. Sum sé góður dagur að kveldi kominn og inn skal haldið með ungann mann í ból...klukkan er orðin alltof margt. Það er bara ekkert uppeldi hjá manni hérna í Edinborg ;)

Góða nótt elskurnar...hvar sem þið eruð :* (hey? er þetta ekki úr Brakúla greifa?)

laugardagur, september 23, 2006

Sunshine lollipops...dúdúdú !

Það er naumast að veðurguðirnir ætla að vera mildir við veðurpirraðan íslendinginn. Ég sem bölvaði þeim upp á hvern einasta rigningardag í Reykjavík í sumar....sem sagt ansi mikið bölv. Það hefur nú svo sem rignt á okkur hér í Skotlandi, neita því ekki, en það eru líka margir mjög góðir dagar búnir að koma. Í dag er sól og blíða og örugglega í kringum tuttugu stigin og á fimmtudag var nettur hitabylgjufílingur í gangi og mollulegt. En nóg um veðrið...

Við hjónin fengum að eiga smá gæðastund í gærkvöld þar sem Hildur bauð stubbnum að gista. Oooo hvað það var nú næs að geta farið út að borða með kallinum sínum og svo í bíó. Við röltum líka aðeins um bæinn og þar var mikið stuð, sérstaklega á George Street en þar ku vera slatti af flottum börum og dansstöðum...og raðirnar leyndu því ekki að staðirnir eru vinsælir þar. Bíóið sem við fórum á Vue-Omni var líka assgoti flott og á jarðhæðinni eru fullt af börum og krám...vel hægt að rölta þar um og stinga sér inn þar sem mesta fjörið er ;)

Sáum myndina Talladega Nights: The Ballad of Ricky Bobby og hún er æði. Will Farrell er snillingur og ég grenjaði úr hlátri...ásamt þeim fáu hræðum sem voru með okkur í risasalnum. Ég dýrkaði myndina Old School og gat hlegið aftur og aftur af sömu atriðunum og þessi mynd stendur alveg jafnfætis Old School. Mæli með henni fyrir þá sem vilja sjá eitthvað létt og fyndið. Það var nú svoldið spes upplifun að horfa á allar auglýsingarnar á undan myndinni og þá er ég ekki að tala um bíóauglýsingarnar. Neibb, það var verið að auglýsa áfengi alveg hægri vinstri. Í cirka 10 mínútur rúlluðu slíkar auglýsingar...Jim Bean, Jack Daniels...Smirnoff...og inn á milli skelltu þeir "drink-awareness" auglýsingum. Frekar tvíræð skilaboð sem er verið að senda fólki...: það er kúl að drekka...en ekki verða of fullur. Já ég veit það ekki...er eiginlega mjög sátt við þá stefnu sem á Íslandi ríkir að þar megi ekki auglýsa áfengi. Ég hef litla trú á að manneskja sem á erfitt með að hafa stjórn á drykkju sinni breytist við að sjá drink-awareness auglýsingu.

Jæja...eftir að hafa fengið að sofa út skelltum við gamla settið okkar bara barnlaus niðrí bæ. Ansi fínt að geta rölt aðeins í búðirnar án þess að hafa unga manninn með....búðarölt er ekki alveg hans tebolli ;) Við náðum sem sagt að sjoppa aðeins...sérstaklega Arnar, hehe. Og jú svo keyptum við tvær flottar myndir af listamanni sem var að selja verk sín út á götu.

Um kvöldmatarleytið skelltum við okkur í smá hjólreiðatúr með Hildi og strákunum. Hjóluðum niður að ánni/kanalnum sem er hérna rétt hjá...ferlega fallegt þar. Klukkan var nú eiginlega orðin of margt þegar við komum úr túrnum...alla vega of margt fyrir eldamennsku...kínamatur frá Good food varð fyrir valinu...nammm...Algert æði og eiginlega stórhættulegt að hafa þá svona nálægt. Við erum á góðri leið með að verða customer of the month...og við erum ekki einu sinni búin að vera hér í mánuð!

Segjum þetta gott í bili, stubbur vaknaður og heldur að það sé kominn dagur. Þannig að nú fer öll litla fjölskyldan upp í ból.

Góða nótt :*
Magga

fimmtudagur, september 21, 2006

HALELÚJA!!!


Ég er komin í samband við umheiminn...ég endurtek: Ég er komin í samband við umheiminn ! Þvílík sæla, þvílík gleði....og í augnablikinu hoppar barnið í sófanum og djöflast en það er ok...ég er á netinu ! Og ég er meira að segja með tvær tölvur í gangi, hleyp á milli fartölvunnar og stóru tölvunnar...bara til að ná að vinna upp þann nettíma sem ég missti af. He he, nú hljóma ég eins og krakkfíkill nýbúinn að fá fix...en kommon, þetta er búið að taka assgoti langan tíma !

Og hvað hefur svo á daga okkar drifið síðan við stigum fæti á skoska grund ? Jú, margt og mikið og okkur líður bara afskaplega vel. Enn sem komið er söknum við ekki gamla Fróns, en að sjálfsögðu söknum við ættingja og vina og vildum helst hafa ykkur öll hér hjá okkur á Blantyre Terrace ;) Íbúðin er alltaf að verða meira og meira eins og okkar heimili, hún var það ekki í fyrstu....heldur frekar eins og húsgangabúð skástrik bókasafn. Okkur féllumst eiginlega hendur þegar við komum inn í fyrsta sinn, þvílíkt af dóti sem kellan hefur staflað hér inn. Íbúðin var meira að segja auglýst með nægu geymslurými en láðist þó að nefna að það geymslurými væri nýtt af the landlord. Hér eru svo margir stólar að við gætum hæglega haldið fermingarveislu og allir fengið sæti. En okkur tókst að stafla inn í skápa og umstafla og fela það sem við höfðum ekki áhuga á að hafa fyrir augunum....og þvílík breyting. Bókasafnið í heild sinni náum við að fela, en ef hér ber gesti að garði getum við viskað upp fjölbreytilegum bókum, allt frá Jesus from Nazareth til How to make love to a negro...já! seinni titillinn er ekki grín, en hér er þó ekki um að ræða leiðbeiningarbók um þetta athæfi heldur skáldsaga...ja hérna hér.

Það sem var þó öllu verra en allt draslið var að íbúðin var mjög skítug og fyrstu dagarnir fóru í að þrífa...frekar frústrerandi eftir að vera útkeyrð eftir þrifin og flutningana úr Sæviðarsundinu. En nóg um það, nú er orðið hreint og kósí hér og búið að vera tvisvar sinnum í IKEA þar sem ýmislegt var keypt í búið. Stofan okkar er gímald, feykistór með arni og mikilli lofthæð, svefnherbergið er sömuleiðis mjög stórt sem og barnaherbergið en þar eru tvö einsbreið rúm. Barnaherbergið er virkilega kósí og þar á eftir að fara vel um þá gesti sem þar eiga eftir að gista...innan um allt dótið hans Elvars ;) Eldhúsið og baðherbergið eru svo sem frekar lítil en duga til síns brúks. Ég reyni að skella inn nokkrum myndum á eftir.

Ég fór í fyrsta tímann í dag, hjá Prófessor Robert Hillenbrand, í Persneskri list og líst bara nokkuð vel á. Enn er ekki komið í ljós hvar ég verð sem nemi en það verður án efa mjög spennanid. Við Arnar og Elvar fórum einmitt á Royal Museum í gær og það er nú frekar flott safn...væri ekki vera að fá að nemast þar ;)

Annars erum við búin að strauja bæinn þveran og endilangan í strætó, sem bæ ðe vei er mjög þægilegt að nota hér í borg. Við þurfum rétt að skoppa út á horn til að taka bússen, og þeir stoppa nokkrir þar og svo barasta ca. 10 mínútur niður á Princes Street. Þangað erum við einmitt búin að kíkja nokkrum sinnum...aðeins að sjá hvað kaupmennirnir þar bjóða upp á ;) Nú og svo erum við líka búin að taka bússen í Ocean Terminal, sem er verslunarmiðstöð með bíói og veitingahúsum og þar liggur konunglega snekkjan Britannica bið Akkeri. Svo kíktum við líka niður á Portobello strönd og tíndum skeljar og kuðunga. Örugglega assgoti gott að liggja þar næsta vor ;) Með okkur í þeirri ferð voru Hildur, Danni og Gísli en við erum einmitt búin að gera marg skemmtilegt með þeim síðan við komum...sem herra Elvari finnst nú ekki leiðinlegt ;) Og þar ætlar hann einmitt að gista annað kvöld og gamla settið ætlar að fá að bregða undir sig betri fætinum...og fá að sofa út!!! jahúú!!!

Segjum þetta gott í bili...ætla ekki að overdúa þessa færslu algerlega.
Knús frá kátum netverja ;)
Magsen

fimmtudagur, september 14, 2006

Netfrahvarf !

Hello hello

Jaeja tha er mar komin a netkaffi (engir islenskir stafir). Takk fyrir kvedjurnar dullurnar minar :) Greinilega brjalad ad gera hja ykkur Hrefna, hlakka til ad sja um jolin og hlakka til ad hitta ykkur saumoskvis i november....er a fullu ad skanna budirnar. Buin ad finna finan stad til ad fara ut ad borda a og thar er lika bar a kvoldin...huggo :)

Vid bidum enn eftir netinu, faum thad vonandi a fimmtudaginn i naestu viku...sem mer finnst nu full langt ad bida :/ en svona er thetta bara her og ekkert vid thvi ad gera. Tha mun vera gerd full skyrsla a hogum okkar og vonandi settar inn myndir af slotinu.

Nenni ekki ad skrifa meir a thetta lyklabord...finnst nu lagmark ad their bjodi mer upp a islenskt lyklabord ! ;) Vid erum annars oll hress og kat og sendum astarkvedjur heim a klakann :*

Luv
Mags and co

laugardagur, september 02, 2006

Jæja þá....nú erum við komin til Edinborgar heil á húfi ! Ég stalst aðeins í tölvuna hennar Hildar til að setja inn nokkrar línur en við verðum vonandi fljótlega komin í netsamband.

Síðustu dagarnir á Íslandi voru hálf kreisí...endalaust af verkefnum sem týndist til en að lokum hafðist þetta. Ég hafði stefnt að því að eiga fimmtudaginn í rólegheit en hann fór nú allt öðruvísi en svo, okkur tókst að selja íbúðina og bílinn á þessum síðasta degi á Íslandi og erum heldur betur ánægð með það :)

En við vorum heldur betur vansvefta þegar vekjaraklukkan hringdi á föstudagsnóttu, náðum kannski tveggja tíma svefni. Þannig að ferðalagið var svoldið strembið því auk þess að vera þreytt vorum við með ca.....skrilljón töskur ! Þegar við loks komumst til Hildar og co tók þar á móti okkur vöfflukaffi a la Steinnunn og smá afslappelsi en við Arnar strunsuðum af stað til að sækja lyklana af íbúðinni. Ég ætla nú að segja betur frá henni í næstu færslu, ætlaði bara rétt að láta vita af okkur.

Knús og kossar á þá sem vilja þiggja :*
Magga og kó