laugardagur, janúar 27, 2007

Stubbur í stuði....



...má til með að skella hér inn tveimur myndum af stubbnum með nýju fínu glösin okkar...

Rólegur laugardagur....



Búið að vera ósköp rólegt hérna meginn það sem af er helgi...kannski fullrólegt ??? Stubbur er búinn að vera með kvef óralengi svo við höfum reynt að halda honum inni eins og hægt er. Við urðum þó aðeins að viðra okkur í dag og fengum okkur meira að segja tvo spássitúra. Röltum í morgun niður Morningside Road, þeir feðgar fóru á bókasafnið og ég kíkti við á Thomson ferðaskrifstofunni. Svo stoppuðum við í Gourmet Pasta og keyptum okkur súkkulaðiköku...assgoti girnilega...en vonbrigðin voru mikil þegar kvikyndið reyndist bragðslaust...fusss...farið hefur fé betra! En við jöfnuðum okkur nú fljótt á þessu ;)

Seinni göngutúrinn okkar var seinnipartinn, gengum niður að kanalnum okkar...langt síðan við höfum kíkt þangað með brauð handa öndunum. Veðrið er búið að vera sæmilega milt í dag en var þó aðeins farið að bíta í kinnarnar undir lokin. En það er alltaf gaman að rölta þarna niður eftir og minnti okkur á fyrstu dagana hér í borg....og fékk okkur til að hlakka enn meira til vorsins...að geta farið að æða hér meira um allar grundir ;)

Annars er svo sem ekkert nýtt héðan....lífið töltir sinn vanagang...skólinn rúllar ágætlega áfram. Ég er búin að liggja yfir ferðabæklingum og reyna að finna ákjósanlegan stað fyrir smá afslappelsi í maí. Það er þrautinni þyngra að taka þessa ákvörðun...Ítalía ? Kýpur ? Krít ?....bahhhh...hlýt nú að komast að niðurstöðu fljótlega...

Að öðru...ég á það nú til að hafa áhyggjur af smáatriðum og velta fyrir mér hugsanlegum atvikum...Fékk nú ansi gott tækifæri til þess að praktísera þetta um daginn þegar ég var að tala við kínversku stelpuna sem er með mér í bekk. Við vorum eitthvað að ræða um væntanlega fyrirlestra um kínverska list og hún tjáði mér að hún hefði verið beðin um að aðstoða kínversku gestafyrirlesarana. Mér heyrist hún taka það fram að hún muni sennilega fara með þá í skoðunarferðir um borgina og við ræðum þetta lítillega. Að lokum segi ég við hana eitthvað á þessa leið...já svo þú verður á fullu að aðstoða...hún jánkar því...og svo ætlarðu að sýna þeim borgina? spyr ég ? Þá segir hún við mig "gott, gott"....sem var ekki svarið sem ég bjóst við....og auðvitað dettur mér í hug að henni hafi heyrst ég bjóðast til að sýna þeim borgina! Svo nú sé ég fyrir mér að ég eigi eftir að lenda í því að túra um Edinborg með miðaldra kínverska prófessora sem tala enga ensku !!! Haha...ha ?

Æi...þýðir ekki að velta sér upp úr þessu...det kommer i lys...

laugardagur, janúar 20, 2007

Eftirköst...

Það er ekki laust við að maður hafi verið frekar dasaður eftir þessa lotu. Það fóru nokkrar vökunætur í blessaða ritgerðina en allt hafðist að lokum....og ég var heldur fegin þegar ég losaði mig við hana á skrifstofuna. Nú er bara að bíða og sjá hver útkoman verður....

En já, ég er búin að vera framlág eftir átökin og helst bara viljað fá að leggja mig vel og lengi...en nei nei, það er enginn tími til þess því þessi önn virðist ætla að verða heldur annasamari en hin. Lesefnið er strax byrjað að hrannast upp fyrir þessa tvo kúrsa sem ég er í og eins gott að halda sér við efnið. Mér líst annars mjög vel á kúrsana, sérstaklega valkúrsinn minn. Ég valdi nefnilega kúrs um Rubens og finnst ég vera meira á heimavelli þar heldur en í persnesku listinni. Prófessorinn sem sér um þennan kúrs er samt heldur mikið "straight-to-the-point" og tók okkur strax á beinið í byrjun. Hann gerði okkur það alveg ljóst að við ættum að mæta undirbúin í tímana...og nú þorir maður ekki öðru en að liggja yfir bókunum ;) Þýðir ekki að kvarta yfir því...til þess kom ég nú...

Ég er annars farin að láta mig dreyma um grænkandi grundir og lengri daga, er orðin hundfúl á skammdeginu...Ég hlakka mikið til að fá að upplifa borgina um vor og sumar og er að sjálfsögðu farin að láta mig dreyma um ferðalög og flakk. En æi...það er bara svo næs að dunda sér við þess háttar dagdrauma á þessum leiðinlega árstíma.

Hummm...er frekar andlaus núna, ætti kannski bara að fara að lesa námsefnið....

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Alger steik....

...lýsir ágætlega ástandi mínu þessa dagana. Er búin að sitja sveitt við skriftir síðan við komum aftur til Edinborgar á sunnudaginn...ok. ok...hef kannski ekki sitið öllum stundum við skriftirnar en hugurinn hefur nær linnulaust dvalið við viðfangsefni ritgerðarinnar. En þessu miðar ágætlega og til allrar hamingju var veittur skilafrestur fram á næsta miðvikudag, átti sum sé að skila á morgun. Það voru ansi góð tíðindi...og þó...hefði kannski bara verið ágætt að geta kvatt ritgerðina á morgun því með auknum tíma slakar maður aðeins meira á...hmmm.... Allavega finnst mér ég nú hafa tíma til að setjast niður og blogga smá ;) (maður verður nú að sinna þessum ca. fimm dyggu aðdáendum sem kíkja hér við, hehe) Og rökin fyrir þessari tímaeyðslu er að heilinn þurfi smá hvíld frá ritgerðinni....

Við komum sem sagt heim úr jólafríinu á sunndudag og erum rétt svo að ná okkur núna eftir öll kósíheitin og átið...sannkallað kósíheit par exellans. Hvað er betra en að eyða jólunum við fjölskyldunni, eta góðan mat, spila, lesa, glápa á góðar ræmur og sofa svo fram á hádegi...ahhhh, það fer bara um mig sæluhrollur við upprifjunina. Og að ekki sé minnst á að eyða kvölstundum í góðra vina hóp, yndislegt bara...Fær mann svo sannarlega til að renna hýrara auga til klakans kalda, þ.e. ef vera skyldi svo að maður hefði verið orðinn klakanum fráhuga, hu hummmm. Ég get nú ekki neitað því að það var svoldið skrýtið að koma aftur og vera að meta landið, horfa á það öðrum augum. Það er svo margt sem Edinborg hefur upp á að bjóða umfram Reykjavík...og auðvitað vice versa...Eftir að hafa velt vöngum yfir þessu öllu inn á milli kósíheitanna sá ég að það er best að vera ekkert að pæla ekkert of mikið í hlutunum, því hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér? Kannski að það sé gott áramótaheit fyrir mig?; að lifa fyrir líðandi stundu og hætta að reyna að kortleggja framtíðina um of.Hvað sem öllu öðru líður er ég viss um að þessir átta mánuðir sem eftir eru verða ofurfljótir að líða og því best að reyna að njóta þeirra til fullnustu.

Held að þetta sé ágætt í bili, heilinn er of fullur af námsefnispælingum til að geta skrifað eitthvað af viti...býst ekki við að einhver hafi áhuga á að lesa blogg um "Far-Eastern elements in the Great Mongol Shahnama"...hmmmm???? Anyone ?

Kveð að sinni og sendi knúskveðjur heim, takk fyrir samveruna :*
Lof jú tú píses....