miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Takk fyrir kveðjurnar...

...ekki slæmt að fá svona sætar afmæliskveðjur á þessum degi...þegar 34. ára gamalt andlit starir á mann úr speglinum. Að hugsa sér! Og mér finnst ég alltaf bara vera 18!


Ég er búin að eiga fínan dag í dag, þurfti reyndar að fara að vinna á safninu en það var nú allt í lagi. Mér varð einmitt hugsað til þess í dag, þegar ég stóð ein í skjalageymslunni í þessu gamla húsi, hversu mikið lífið hefur breyst síðan á síðasta afmælisdegi....skrýtið að vera að vinna á listasafni í Edinborg...og bara yfirleitt að búa í Edinborg. En svona er þetta nú...enginn veit hvar hann dansar um næstu jól ;)


Í hádeginu hitti ég Elvar og Arnar og við fengum okkur að snæða saman á kaffihúsinu í Royal Museum. Og eftir að vinnudegi mínum lauk fór ég að hitta Arnar, Hildi, Steinunni og strákana sem voru að fá sér að borða á svaka fínum veitingastað á George IV brúnni í tilefni af því að Hildur var að útskrifast í dag úr háskólanum. Því næst örkuðum við öll niður í bæ í Winter Wonderland, fengum okkur vöfflur, púns, súkkulaðihúðaða sykurpúða og jarðaber og ýmislegt annað gúmmelaði. Strákarnir fóru í nokkur tæki og allir skemmtu sér vel....mjög auðvelt að komast í jólaskap þarna þegar maður mokaði í sig vöfflu með heitu súkkulaði og rjóma og hlustaði á jólalögin....ekki slæmt að halda upp á daginn svona.


En nú er ég komin í náttsloppinn og ætla að fara að gæða mér á indverskum frá vinum okkar á Morningside Spice og eiga huggulega kvöldstund með mínum ektamanni (sá stutti sefur svefni hinna krúttlegu).


Hafið það gott krúttin mín...hvar sem þið eruð :)

Magpie den alte


p.s. læt hér fljóta með sæta afmæliskveðju sem ég fékk frá Nick vini mínum (I wish!!!)

mánudagur, nóvember 27, 2006

Æi nei....

...ekki get ég nú sagt að ég sakni íslenskrar þáttagerðar. Arnar var að horfa á fréttirnar á netinu í gær og í framhaldi af því datt hann inn í bút úr þættinum Tekinn! Við horfðum á þetta með kjánahrollinn á fullu...þetta var eitthvað svo yndislega vandræðalegt....sumt bara virkar ekki á Íslandi. Það var deginum ljósara að Sigmundur Ernir, sem var verið að "Taka!", vissi nákvæmlega hvað var í gangi. Útkoman varð sem sagt frekar pínleg...slökkviliðsmennirnir (eða þeir sem léku þá) vandræddust þarna á tröppunum hjá honum og reyndu að fá einhverja geðæsingu frá Simma kallinum. Frekar illa leikið.."Uuuu..þú þarft að borga...uuu 120þús.." (hefði alveg eins getað sagt billjón og túkall, það hefði verið jafn kjánalegt)...og þegar Simmi sagði bara já! og bað um kvittun kom gaurinn með örvæntingafulla lokatilraun til að hrista fram aksjón: "Hurru góði...óþarfi að vera með dónaskap" ...æææ...þarf að segja meira...Ég tek það fram að þetta er ekki nákvæm tilvitnun í þáttinn, hehe, en svona nokkurn veginn það sem ég sá og á þessu byggi ég minn dóm: Þetta er og/eða verður algert flopp! Endilega leiðréttið mig ef þið eruð ekki sammála eða hafið séð eitthvað jákvæðara í þessum þætti ;)

En nóg um að...ohh, ég vildi að ég væri svona málglöð þegar kemur að ritgerðarskrifum :/ Er á fullu að lesa og fara yfir heimildir fyrir ritgerð um Kínversk áhrif í fornu myndskreyttu handriti (hljómar vel ekki satt ?). Þetta er samt alveg áhugavert, verst að ég virðist vera haldin einhvers lags verkkvíða og á afskaplega erfitt með að hefja skriftirnar. Ég þarf reyndar ekki að skila þessari fyrr en 12. janúar en vill endilega klára fyrir jól...svo ég geti notið samvista við ykkur elskurnar um jólin! Nenni eiginlega ekki að eyða jólunum í ritgerðarskrif...hvað þá að ég nenni að druslast með bækurnar í töskunni! Hmmm...kannski spurning um að hætta þessu babli og halda áfram að vinna...?

Að lokum þó...talandi um skriftir; rakst á þessa tilvitnun í einni skruddunni :

"Writing is the offspring of thought, the lamp of remembrance, the tongue of him that is far off, and the life of him whose age has been blotted out"

Finnst þetta nú ansi fallegt og mikið til í þessu....í mínu tilviki eru skriftirnar (bloggið) tunga þess sem er langt í burtu...frá vinum og vandamönnum...bara spurning hvort einhver er að lesa þetta röfl, haha!

Æi þetta er orðið fínt..byrja á lágmenningu, hámenning í miðið...enda á...tjahhh? ...kannski bara þessu týpíska;
Knús og kossar
Magpie

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Tómlegt í kotinu...

Þá erum við aftur orðin bara þrjú í kotinu. Svoldið tómlegt eftir að vera hérna sjö að hafa það kósí saman....en sem betur fer er stutt til jóla. Mamma og pabbi voru hér í rúmlega viku og fóru á þriðjudaginn og Stína og Emba Ýr komu frá Danmörku og fóru í gær. Frábært að þær skyldu geta komið á sama tíma og mútta og pápi :)

Við gerðum nú margt og mikið á þessum tíma en auðvitað langaði manni að gera miklu meira og sýna allt sem hér er að sjá. En það setur nú svoldið strik í reikninginn að nú er vetur og byrjar að dimma upp úr fimm. Við skoðuðum kastalann, míluna, snekkjuna hennar Betu drollu og svo vorum við með bílaleigubíl í nokkra daga...sem var nú alger lúxus :) Frábært að rúnta svona um bæinn og hvíla sig á strætóferðum og Arnar stóð sig vel í vinstri umferðinni...held hann hafi bara einu sinni bölvað einhverju fífli sem kom á móti honum "öfugu meginn" ;). Við fórum t.d. til St. Andrews, sem er háskólabær í rúmlega klukkutíma fjarlægð. Ofsalega fallegur bær með flottri strönd og gömlum minjum...kom eiginlega á óvart hvað hann er flottur...ætla pottþétt þangað aftur. Þá var líka bara mjög gaman að keyra þangað og sjá "the countryside". Við keyrðum líka upp á Carlton Hill en þar er mjög flott útsýni yfir borgina og einnig yfir Arthurs Seat.

Það var svoldið skrýtið að setjast upp í bíl og geta rúntað svona um...þurfa ekki að taka strætó í búðirnar og þess háttar, þetta vakti pínu upp í manni lúxuspúkann, sem var búinn að vera í dvala. Ég stóð mig að því að vera farin að hugleiða hvort við ættum ekki bara að fá okkur bíl á meðan við værum hérna. Við vorum orðin mjög vön því að taka bara bussen eða ganga og satt best að segja var enginn söknuður eftir bíl...fyrr en núna ;) En það líður án efa hjá og bussen verður aftur uppáhalds-fararskjótinn okkar. Ég áttaði mig samt bara á því um daginn hvað maður hafði breyst mikið með þetta strætómál...þegar Óli bró lét þau orð falla að hann hefði ekki átt von á að lifa þann dag af að Magga systir hans væri farin að ferðast með almenningsvögnum, hehe. Jámmm....svona er maður með mikla aðlögunarhæfni ;) og nú þarf hún að nýtast í að aðlagast aftur frá bílferðum :)

Já allt tekur víst enda og nú eru allir farnir á sinn stað. Stutt þar til við hittum foreldrana en spurning hvenær við hittum danina okkar aftur :( Og ekki bætti úr skák að þær mæðgur voru veikar með ælupest þegar við kvöddumst...úff, ekki gaman að eiga flug og millilendingu fyrir höndum í svoleiðis ástandi, en það hafðist hjá þeim.

En já...pestarstússið heldur áfram því Arnar krækti sér í ælupestina og nú bíðum við Elvar og vonum að við sleppum....cross my fingers ;)

Annars er ég mest hissa á því hvað tíminn æðir áfram...nóvember að verða búinn og jólin nálgast á ógnarhraða. Það er ekki laust við að það sé kominn smá fiðringur í mann yfir jólunum og í dag á að kveikja á öllum jólaljósunum hér í bæ og opna The Winter Festival. Það verður æðislegt að rölta niður í bæ og upplifa jólastemmninguna hérna. Og ég ætla að vona að mér takist að njóta þess, á eftir að skrifa tvær ritgerðir og kominn tími til að bretta upp ermarnar, á að skila einni 15. des og hinni í janúar. Er samt að láta mig dreyma um að klára báðar fyrir jól og geta notið þess að vera í jólafríi á Íslandi....njóta þess að hitta vini og vandamenn...ahhh, ég er sko farin að hlakka til.

En nú er víst best að snúa sér að erma-uppbrettingum og hefja ritgerðarsmíðarnar. Síðustu tímarnir eru í næstu viku og desember því allur frátekin í skrifelsi....og jólastúss þar sem það kemst að ;) Ég reyni nú kannski að láta heyra eitthvað í mér inn á milli...droppa inn nokkrum gullkornum af minni alkunnu snilld, múahahaha...ha ?

Until then, kanúdels :*

mánudagur, nóvember 06, 2006

*Hóst* *Hóst*


Jæja...það hlaut að koma að því að maður legðist í pest. Er heima í dag með hita, kvef og tilheyrandi...ferlega fúlt og sérstaklega af því að á mánudögum á ég að vera að vinna á safninu. Ekkert sérstaklega gaman að þurfa að hringja sig inn veikann...á ensku...það er nógu leiðinlegt að gera það á ástkæra ylhýra hvað þá að vera að bögglast með orðaval. En það hafðist og sú sem ég talaði við var ekkert nema elskulegheitin "Oh, I hope you´re not feeling to bad" og "Take care"....voða næs.

Þetta pestarkvikyndi byrjaði að gera vart við sig um helgina en ég hundsaði það algerlega þar sem ég hafði nóg að gera að njóta félagsskapar vinkvennanna sem komu á fimmtudaginn og fóru í gær. Það var mikið stuð og mikið verslað...jú og svo var verslað aðeins meira, haha ;) Princes Street var þrætt nokkrum sinnum og svo fórum við líka í retail park, Fort Kinnaird, þar sem er mjög fínt að versla...fullt af fínum búðum. Og jú líka í Asda..þar sem opið er allan sólarhringinn...ekki slæmt það. Þá var einnig túrhestast aðeins, röltum á Royal Mile upp að kastala og svo niður hlíðina í garðinn þar fyrir neðan. Á laugardaginn fórum við til Glasgow og þar eru nú búðir í massavís. Assgoti fínt að versla þar...þó svo að mér finnist Edinborg þó nokkrum sinnum fallegri borg (ohh, hvað maður er orðinn lókal hérna ;)) Um kvöldið fórum við að borða á frábærum kínverskum veitingastað, maturinn var frábær og þjónustan alveg ótrúleg. Ég held bara að ég hafi aldrei farið á svona fínan austurlenskan stað...servíettann var breidd út fyrir mann og endalaust verið að fylla á vatnsglösin. Og öndin! jiii hvað hún var góð...alveg þess virði að gera sér ferð þangað bara fyrir öndina. Dagga sá um að panta þarna enda búin að snæða þarna áður, og Elva líka. Og ekki fannst mér nú mikið að borga 30 pund fyrir fínheitin...fyllilega þess virði. Ekki slæmt að borða afmælismatinn þarna Líney mín ;) Við fengum okkur síðan smá göngutúr um miðbæinn...aðeins að sjá lífið í Glasgow.

Í gær brunuðu þær skvísur svo út á flugvöll og ég tók lestina heim. Verst að þær þurftu nú að bíða lengi á flugvellinum vegna ofsaveðurs sem geisaði á Íslandi...en það var vonandi eitthvað hægt að dunda sér á flugvellinum ;) Og þær komust nú heim á endanum og þar með lauk þessari helgi sem leið alltof fljótt. Takk fyrir komuna skvísur *smooch* :* Gaman að fá ykkur og hafa ykkur hérna hjá okkur...ekkert smá kósí að flatmaga með ykkur á náttfötunum. Elvar Orri spurði í gær þegar ég kom heim : "Hvar eru vinkonurnar?" , hehe...ekki sáttur við að ég kæmi bara ein.

Þegar heim var komið kíktum við lille familien aðeins í bæinn með Hildi og Danna. Fórum á hollenska markaðinn, fengum okkur nammi á nammibarnum og hollenskar pönsur með flórsykri og súkkulaði...guuuð minn góður hvað þær eru góðar! Við röltum svo aðeins um bæinn og tókum myndir. Veðrið var mjög fínt, milt og sæmilega hlýtt. Við Arnar getum sko alveg gleymt okkur í myndatökum...gaman að mynda allar flottu byggingarnar upplýstar. Og sem betur fer er Elvar þolinmóður við foreldrana á meðan á þessu stendur ;) Þetta var voða kósí en ekki gerði þetta kvefinu gott og ég lá eins og skata um kvöldið...

Jæja nóg af skrifum í bili...nú skal lagst upp í rúm og kvefið rekið á brott. Enda þýðir ekkert annað en að vera hress fyrir næstu heimsókn. Mamma og pabbi koma á næsta sunnudag og við erum sko farin að hlakka til að sjá þau :)

Flensuknús :*

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Hooker barbie ?

Var að lesa ansi áhugaverð grein í einum af fréttasneplunum sem maður kaupir stundum. Greinin var skrifuð að móðir sem hafði áhyggjur af þeirri stefnu sem leikfangafyrirtæki hafa tekið varðandi framleiðslu leikfanga, sérstaklega fyrir ungar stelpur. Hún sagði frá því þegar hún hélt upp á fjögurra ára afmæli dóttur sinnar og ein gjöfin var Bratz dúkka. Dúkkur þessar hafa verið gífurlega vinsælar, sérstaklega hér í Bretlandi og eru hannaðar fyrir stúlkur á aldrinum 4/5 - 7/8 ára...markhópur sem Barbie var löngu hætt að heilla. Og þessar dúkkur er vægast sagt ansi "modern" , í magabolum áletruðum "Babe", þröngum gallabuxum og stífmálaðar. Mér fannst blaðakonan lýsa því ágætlega þegar dóttirin opnaði pakkann...fyrsta sem móðirinni datt í hug var; "Oh, is this a new Barbie..hooker Barbie?" ;)

Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki pælt í þessu fyrr...hversu fáránlegt þetta er í raun og veru. En ef grannt er skoðað eru þetta ekki góðar fyrirmyndir fyrir óharðnar stúlkur, þá er nú betra að velja Ballet-Barbie. Ein hugmyndin um hvert markaðsöflin væru að fara með þessu er sú að þarna sé verið að rækta "good consumers". Stúlkurnar hafa þessar fyrirmyndir fyrir framan sig frá unga aldri; málaðar, klæddar ögrandi, í sexí nærfatnaði (ójá ein dúkkan er í slíkum fatnaði), og vaxa upp haldandi það að þær eigi að vera eins...og eru þar með orðnar framtíðar neytendur í nærfatabúðum o.s.frv. Einnig virðist nýjasta línan frá Bratz leggja áherslu á tískuiðnaðinn og fyrirsætu lúkkið, enda heitir línan "Passion for Fashion". Þetta er ekki góð sýn..að maður tali nú ekki um áhrifin sem þetta hefur á unga drengi. Jámm..það er greinilega margt að gerast í heimi markaðsetninga og verslunar sem maður ætti kannski að vera vakandi fyrir...ef við viljum að börnin okkar fái að vera börn eins lengi og þau eiga rétt á. Og hana nú !

En á léttari nótum...hér er allt á fullu í undirbúningi fyrir innrásina ógurlegu ;) ...pressa lök, sulta, baka skonsur....heimalagaðar mintur til að leggja á koddana...haha!

Bless í bili