föstudagur, ágúst 31, 2007

Sumarið sem hvarf...

...þá er komið að því. Hér sit ég á hótelherbergi í Glasgow, síðasta kvöldið mitt í Skotlandi, allavega sem íbúi þessa lands. Þetta sumar fór algerlega framhjá mér í loftköstum, veit eiginlega ekki hvað varð af því??? Kannski helst vegna ritgerða-anna, en líka vegna þess að hér í Skotlandi er varla búið að vera neitt sumar. Þannig að nú er komið að því, þetta ár er liðið og eftir sitjum við, den lille familie, reynslunni ríkari og afskaplega sátt. Þetta hefur verið frábær reynsla í alla stað, fyrir okkur persónulega og fyrir mig "professionally", við höfum kynnst fullt af skemmtilegu fólki og litli stubburinn okkar talar ensku eins og innfæddur (jaa allt að því). Við Arnar höfum síðustu daga verið afskaplega stolt af því að heyra hann tala og sjá hversu hratt honum hefur fleygt fram. Hann getur nú orðið léttilega haldið uppi samræðum og skilur mjög mikið. Og ekki er hann feiminn við að beita enskunni, við mæðginin brugðum okkur t.d í Jenners um daginn og tókum eftir því að verið var að tæma leikfangadeildina. Ég sagði Elvari að það væri kannski bara verið að loka henni og að hann yrði bara að spyrja starfsfólkið ef hann vildi nánari svör (og hann vill yfirleitt frekar ítarleg svör ;)). Minn maður vatt sér þá að búðarborðinu, beið lengi þolinmóður þar til kom að honum og sagði þá: "Excuse me, why are you closing?" Það er óhætt að segja að móðir hans missti andlitið af undrun yfir tungumálahæfni sonarins.

En já, síðustu dagarnir og vikurnar okkar hafa verið annasamar. Nóg að gera að pakka í skip og versla það sem versla þurfti (já þurfti!). Svo fengum við heimsókn frá Stínu og mömmu og skemmtum okkur með þeim í nokkra daga, við að versla og skoða okkur um. Við náðum sem betur fer að bregða okkur með þeim út úr bænum, brunuðum til North-Berwick sem er strandbær rétt fyrir utan Edinborg. Þar er afskaplega fallegt og þar fundum við líka fallegan kastala...Tantallon castle...mjög gaman að koma þangað.

Arnar brunaði svo til Immingham á þriðjudaginn með alla okkar kassa. Það gekk bara nokkuð vel að rusla þessu inn í bílinn á mánudagskvöldið, enda fékk hann hjálp frá þremur bakveikum kellingum ;) og einu 4 ára ofurmenni! Þetta var nú samt ansi mikið álag á kallinn, allur dagurinn fór í að keyra dótið enda er ca. 5 tíma leið til Immingham. En það hafðist og ég sendi hann í nudd daginn eftir...Dagarnir eftir þetta fóru svo í að pakka restinni af dótinu, sem var alltof mikil, og þrífa pleisið. Ég held nú að við höfum þrifið alltof vel, svona miðað við hvernig við tókum við 28 Blantyre Terrace síðasta haust...en kannski sem betur fer því akkúrat þennan dag var nýr starfsmaður að byrja hjá ALBA og kom hann með í house inspection-ið. Stúlkan sem átti að sjá um þetta hefði verið farin út eftir kortér, en ekki þessi nýi. Onei, hann var þvílíkt nákvæmur og hægfara að við sáum hana ranghvolfa augum af pirringi. En út sluppum við með alla okkar pinkla og hafurtask....ætla ekki að hafa eftir hve margar einingar þetta voru (erum sem sagt búin að fjárfesta í einni stórri tösku hér í Glasgow til að sameina draslið). Við brunuðum svo niður á Waverly til að fá að geyma töskurnar á meðan við hittum Rósu, Bigga og Bjarnheiði í lunch. Og jú, heppni okkar var þvílík að töskukallarnir rukkuðu 5.50 pund fyrir hverja tösku!!! og þá skipti engu hvort ein var snyrtitaska og sú næsta gímald, neibb, sama verð á allar. Okkur datt ekki í hug að borga svona mikið og völdum stærstu þrjár í geymsluna. Síðan skröltum við eins og verstu rónar með restina af töskunum, hlöðnum utan á kerruna hans Elvars, upp á Victoria Street. Þar áttum við góða stund á Howie´s, frábært að ná aðeins að anda í Edinborginni áður en við brunuðum til Glasgow.

Jæja, held þetta sé nú orðið ágætt og komin tími til að leggjast til hvílu. Það er skrýtin tilfinning í okkur hjónunum, áttum okkur eiginlega ekki á því að við séum að fara "for-good", erum bæði spennt og eilítið angurvær, það er jú búið að fara svo vel um okkur hér. En allt tekur enda og okkar bíða skemmtilegir tímar með fjölskyldu og vinum...við heimtum spilakvöld og endalausa hittinga!!!

Sjáumst fljótt!!!
Margret...signing out from Scotland....

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Elskurnar mínar :)
Já mikið hlökkum við til að sjá ykkur :D Og já endalausir hittingar eru á planinu okkar ;)
Ég get skilið að þetta sé skrítin tilfinning sem hellist yfir ykkur eftir árið í Edinborg, en eftir að einar dyr lokast opnast aðrar með nýjum og spennandi hlutum að takast á við :D
Æi hvað það er sætt hvað Elvar er orðinn duglegur í enskunni!! við verðum að tala ensku við drenginn til að viðhalda henni ;)
Hlakka til að knúsa ykkur kæru vinir!
Við segjum bara: "Velkomin til Íslands" kæru vinir og við hlökkum til að eyða stundum með ykkur!!
Knúúús :*
Hrefna, Þröstur og börn :)

9:36 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Elsku vinir!já tíminn líður svo sannarlega hratt,vá hvað mér kveið fyrir þegar þið fóruð ,hélt þetta yrði endalaust,en halló þetta er bara búið...Nú taka við ný og skemmtileg ævintýri og þið sjíð það núna VONANDI hvað við erum yndisleg hérna á frónni........Þið eruð best og ég segir bara eins og hún hin þarna nýbakaða mamman..VELKOMINN HEIM dúllur..hlakka til að knúsa ykkur...kveðja Elva og drengjastóðið

10:14 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hallóhalló!!!
Fann ykkur með hjálp frá Google ;-)
Hérna finnum við alveg fyrir því að hornið á Blantyre Terrace sé tómt - allavega ekki íslenskt lið sem býr þarna, ekki þannig straumar sko...
Vona að verðlagið á Frónni sé ekki að fara með ykkur; við fengum sjokk vægast sagt!
Endilega veriði dugleg að blogga um ykkur á Íslandi, maður verður nú að fá að fylgjast með;-)
Bjarnheiður biður sérstaklega vel að heilsa Elvari Orra.
Bestu kveðjur frá Edinborginni

8:49 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home