laugardagur, október 28, 2006

Trick or treat !


Nú erum við orðin svo útlensk og sigld að við höldum bara upp á hrekkjavökuna...ha, haldiði að það sé nú ;) Héldum hérna kaffiboð í dag með tilheyrandi spooky kökum og graskerið auðvitað á sínum stað. Húsið var næstum fullt af skemmtilegu fólki og barasta hinn notalegasti eftirmiðdagur. Það er voða auðvelt að týna sér í svona dóti...búðirnar fullar af ótrúlega skemmtilegu draslerí og girnilegum kökum...á spottprís. Auðvitað segjumst við vera að þessu fyrir Elvar en við höfum nú lúmskt gaman af...

Við erum annars hress og kát og Elvar virðist vera að taka leikskólann í sátt aftur...vonum það besta :) Ég fór á fund í vikunni á listasafninu sem ég verð nemi á og fékk ávæning af því sem í vændum er. Mér líst rosalega vel á en það er ekki laust við að nettur fiðringur sé farinn að gera vart við sig. Ég verð að vinna náið með da boss á safninu, þeirri sem sér um allt þarna og er the principal curator. Hún var mjög viðkunnaleg en örugglega hörkukelling. Það sem mér leist líka heldur betur vel á var það að ég fæ kannski að skipuleggja eina til tvær sýningar sjálf og það er nú ansi feitur biti. AÐ maður tali nú ekki um hversu vel þetta á eftir að líta út í ferilskránni, þ.e. ef ég stend mig vel ;) Ég byrja sum sé á mánudaginn og verð síðan alla mánudaga frá 10-16 í sex mánuði. Auðvitað varð ég að kíkja aðeins í búðirnar....því ekki mætir maður í gallabuxum í svona fínt jobb! Svo eru nú vinkonurnar að kíkja í heimsókn í næstu viku og ég neyðist örugglega til að versla eitthvað meira (ó mig auma!) ... bæði þeim til samlætis og til þess að finna framakonudressið ;)

Arnar er líka loks búinn að fá einhverjar fréttir af því sem hann á að gera í vetur og fær vonandi tölvugarminn sendan fljótlega. Hann ætlar sér að vera í fjarvinnu í tengslum við sitt gamla starf og fá nokkra auka aura..eða pence...í budduna (fyrir mig til að eyða!!! hahaha)

Jæjahhh já, ætli ég fari ekki að leggjast á meltuna...eða að borða meira af þessum delicious kökum :P

Spooooky-kveðjur frá Blantyre-Terrace-skrímslunum :)



p.s. Arnar er að setja upp nýja myndasíðu fyrir ljósmyndaáhugann okkar sem og myndir sem fara ekki á Elvars Orra síðu. Slóðin er: http://www.minus4.net/photos/

föstudagur, október 27, 2006

Stelpur.....



...það er bara tæp vika þar til þið gerið innrás í Edinborg! Bara svona að láta ykkur vita...;) Ég er búin að vara helstu búðirnar við og þær eru þegar byrjaðar að byrgja sig upp, enda þýðir ekkert annað þegar svona sjopping-team kemur í bæinn, hehe. Spurning hvort að þessar myndir séu lýsandi fyrir komandi daga ;)

Hlakka þvílíkt til að sjá ykkur
*Smooch*
Shop-till-u-drop-Mags

mánudagur, október 23, 2006

Myndir!






Skelli hér með nokkrum myndum frá í gær :)

Pistill dagsins

Jámm, maður verður víst að standa sig í blogginu...það hafa þegar borist kvartanir, best að bæta úr því.

Af okkur er allt hið besta að frétta...haustið hér í Edinborg er milt og gott, enn sem komið er. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt með Árna og Steinunni á meðan þau voru hér og nú er sem sagt formlega búið að vígja gestaherbergið (þ.e. fyrir utan hina Edinborgarana sem gistu þar um daginn ;)) Ég held að það hafi bara farið vel um Árna í dótaherberginu...sem nú bíður bara eftir næstu gestum :) Það er heldur betur farið að styttast í næsta holl...og ég búin að þjálfa vel upphandleggsvöðvana til að geta hjálpað til við pokaburðinn, nú eða til að geta sveiflað kortinu aðeins sjálf!

Edinborg er sífellt að koma okkur á óvart og leggja fleiri snörur fyrir okkur...jákvæðar snörur :) Við fengum okkur góðan göngutúr í gær í frísklegu haustveðri og uppgötvuðum alveg yndislegan stað. Hér í miðri stórborginni rennur í gegn á og kallast þetta svæði Water of Leith. Það er eins og að vera komin út í sveit að ganga eftir stígnum frá Dean Village til Stockbridge. Þarna voru áður fyrr myllur sem sáu um alla kornframleiðslu fyrir Edinborg og nágrenni og enn má sjá nokkrar leifar af því. Yfir ánna er svo hin vígalega Dean bridge sem var byggð 1833 og er ansi mögnuð. Elvar Orri var hinn ánægðasti að skoppa um í haustlaufunum og ég lét það út úr mér að ég gæti hugsað mér að setjast hér að til framtíðar bara til þess að geta notið þessa, haha!

Eftir göngutúrinn fengum við okkur heitt súkkulaðið á Caffé Nero, sem er orðið uppáhalds kaffihúsakeðjan mín ;) og gengum svo í gegnum New Town niður á Princes Street. Það er mjög gaman að ganga þarna í geng og sjá viktoríanska byggingastílinn á byggingunum þar...ansi sjarmerandi.

Ég fór aðeins út um daginn með skólafélögunum, kíktum á bar eftir fimmtudagsfyrirlesturinn. Mér er nú alltaf að lítast betur á þetta lið og er búin að sjá nokkrar efnilegar mágkonu-material (haha! Óli minn, just for you! Maður er alltaf að hugsa um brósa sinn) Velski strákurinn, Owen, bauð mér að koma og sjá Rugbyleik eftir nokkrar vikur...maður verður nú að prufa það.

Svo spjallaði ég aðeins við prófessorinn sem er programme director, Richard Thomson, og hann sagði mér að hann hefði aldrei komið til Íslands en þó farið á bak á íslenskum hesti. Sagðist hafa beðið um rólegan hest og fékk hest sem hét Örvar, sem stóð svo undir nafni og pílaðist út í loftið með karlgreyið. Honum létti mikið þegar ég hafði svipaða sögu að segja...nema hvað hesturinn sem ég fór á hét Blíða...og stóð ekki undir nafni! Sú ferð losaði mig allavega við hestadelluna, en ég var búin að þreyta mömmu og pabba mikið með suðinu um hesta, hehe. En já, hann var mjög áhugasamur um landið, eins og flestir sem ég hef spjallað við. Ég reyni að sjálfsögðu að vera jákvæð í garð klakans og segi öllum að þangað sé nauðsyn að koma ;)

Jæja ætli þetta sé ekki ágætt af röfli í bili, best að dýfa nefinu ofan í bækurnar :/

föstudagur, október 13, 2006


Æi maður á svo mikið gull...Hann getur svoleiðis sjarmað foreldra sína upp úr skónum...fimm mínútum eftir að hann hefur alveg gert þau ga-ga. En það er sennilega þannig með flest börn. Það er ótrúlega gaman að upplifa að vera hér með honum og í gegnum hans augu. Án efa væri þetta allt öðruvísi ef við værum hér bara tvö, barnlaus. Ekki eins spennandi tilhugsun...

Það er nú samt þannig að einmitt hans vegna hafa komið einu efasemdir mínar um þetta brölt. Mér líður mjög vel hérna, eiginlega miklu betur en ég bjóst við. Ég átti eiginlega von á að þetta myndi taka miklu meira á, held að ég hafi búist við að þetta yrði eins og þegar ég fór að passa hjá Jónu frænku forðum daga...úff. Eins og þau hjón voru (og eru) skemmtilegt fólk og ég hefði ekki getað fengið betri stað til að vera í vist á. En nei...Magga litla hringdi heim í mömmu sína á hverjum degi (eða ég held það) og volaði..hehe, hægt að hlæja að þessu núna ;) en lengi var ég með þvílíkt samviskubit vegna þessa. Bæði vegna mömmu, sem þurfti að fá þessi símtöl, og Jónu og Hnikarrs sem skildu sennilega ekkert í þessum vælandi unglingi. Allavega...ég hafði sem sagt þessa meinloku í mér þess efnis að fyrst ég gat ekki verið lengur en þrjár vikur í barnapíuvist þegar ég var 13 ára þá gæti ég örugglega ekki flutt til útlanda án þessa að það tæki "traumatískt" á. En..að hugsa sér, hér er ég og engin "trauma" enn ;) Auðvitað saknar maður fólksins síns...en sennilega gera þessi tuttugu ár, sem liðin eru, það að verkum að ég hef ekki þörf fyrir að hringja vælandi heim, haha.

Þannig að, einu efasemdirnar mínar eru vegna barnsins...erum við að gera rétt með að hafa flutt svona út? Hans vegna ? Þessi litlu grey hafa ekkert um það að segja hvort þeim er druslað út í heim....burtu frá ömmum og öfum, frænkum og frændum...Ásdísum og Eddum ;) Og svo bara allt í einu kominn inn á skoskan leikskóla þar sem enginn skilur mann. Hann hefur nú samt verið ótrúlega duglegur og þetta gengið vel, en auðvitað hafa komið tímabil þar sem hann biður um að fá að fara heim til Íslands og segist ekki vilja fara á þennan leikskóla...bara Ásborg! Og þetta klípur svolítið í mömmuhjartað....en ég veit líka að börn hafa ótrúlega aðlögunarhæfni og að þetta er bara erfitt tímabil á meðan hann er að komast inn í allt saman. Á meðan reynum við bara að hlúa vel að stubbnum og halda þétt utan um hann...

Jæja...þetta er orðið ágætt af þess háttar hugleiðingum :) Á morgun skal haldið í dýragarðinn...ætlum að eiga góðan fjölskyldudag, vona bara að verðrið verði gott (reyndar búið að vera mjög milt og gott undanfarið). Svo er von á ættingjum á sunnudaginn og það ætti nú að kæta lítinn mann, Steinunn amma kemur og verður í viku og Árni frændi kemur líka og ætlar að gista hjá okkur í nokkra daga.

Sem sagt nóg að gera en nú ætla ég að breiða úr mér í sófanum og horfa á LOST...já LOST´...nýju seríuna :P

Pís át
Mags

sunnudagur, október 08, 2006

Skógarferð ...


Vorum að koma heim úr yndislegri skógarferð. Við fórum út að hjóla og römbuðum, eiginlega fyrir slysni, inn í skóg sem er ekki svo langt frá okkur, nokkurs konar náttúruverndarsvæði með tjörn og dýralífi. Við náðum nú ekki að skoða allt saman en stefnum á að fara aftur þangað hið fyrsta. Elvar Orri var í essinu sínu, hljóp um og naut sín í náttúrunni...frábært að hafa svona græn og villt svæði í miðri borg.

Annars erum við búin að eiga góða helgi. Fórum í gær á farmers market niðrí miðbæ. Þar var margt að sjá og skoða og Elvar gerðist svo djarfur að smakka á strútaborgara...ja smakka á, hann gerði nú gott betur en það...hámaði hann í sig. Ég var nú ekki alveg eins æst í að smakka, en það er frábært að sonurinn er aðeins ævintýraþyrstari en móðirin ;) (þarf nú kannski ekki mikið til...hmmm). Síðan þvældumst við aðeins um bæinn, skoðuðum Grassmarket hverfið sem er mjög sjarmerandi og fullt af litlum og skemmtilegum búllum.



Svo tekur alvaran við á morgun, tími hjá Prof. Hillenbrand. Ég er alvarlega að gæla við að lokaritgerðin mín verði um eitthvað tengdu íslamskri list og líklegt að maður þurfi ráð frá honum, enda sérfræðingur í þessum efnum. Það er svona aðeins farið að renna upp fyrir mér að ég þarf að vera mjög skipulög við lesturinn....væri frekar súrt að koma heim með diplómu í stað mastersgráðu :/ Neibb, best að fara að bretta upp ermarnar !

Var að setja inn eitthvað af nýjum myndum á myndasíðuna

Segi það gott í bili, kallarnir eru að baka pönnsur :p ...vill einhver koma í kaffi!

miðvikudagur, október 04, 2006

Leikskólasögur...partur tvö...

Jæjahh, þá er komin botn í leikskólamálin og drengurinn búinn að fara í heimsókn á leikskólann. Við hringdum strax á mánudagsmorgun í þennan sem við hjóluðum framhjá og þar var hægt að koma honum að med det samme. Okkur líst gríðarlega vel á þetta, húsið er mjög stórt, garðurinn mjög fínn og þau fá að gróðursetja blóm og grænmeti. Sér activity-room og sér quiet-room...sem sagt tölvuert meira rými en á leikskólanum sem er í götunni okkar. Við förum aftur í heimsókn á morgun og eigum við að láta okkur hverfa eftir ca. 15 mín og sjá hvernig gengur. Ef allt gengur vel mun Elvar verða þarna þrisvar í viku eftir hádegi.

Svo fór mín bara út á lífið hér í borg í fyrsta sinn og það á þriðjudagskvöldi, hehe. Nokkrir af krökkunum sem eru með mér í skólanum ætluðu að skella sér út á bar og jafnvel að klúbbast og buðu mér að koma með. Litla félgasfælna ég var náttúrulega ekki að nenna (sá fyrir mér í hillingum að liggja fyrir framan imbann og horfa á sjónvarpið...eins og öll hin kvöldin) en ég ákvað nú að drífa mig...enda var nú ætlunin að fá sem mest út úr þessari upplifun (að flytjast hingað) og vonandi kynnast skemmtilegu fólki. Þetta reyndist svo bara hin besta skemmtun, fórum á bar sem kallast Frankensteins og enduðum í Pop-quiz...skemmtileg upplifun.

Ég er nú sennilega í eldri kantinum af þessum hóp, mjög mikið af þessum krökkum eru á bilinu 24 -27 en ég er nú svo svakalega youthful að það skiptir engu máli...haha...ha !?!

Annars finnst mér nú skólinn byrja ansi rólega og ég/við höfum mikinn tíma til að þvælast um borgina...kíkja í búðir og sonnna ;) En ég er nú sein til kvartana þegar það kemur að svona málum og er reyndar fullviss um að innan skamms verði ég á haus í ritgerðarskrifum og verkefnaskilum.

Já og ekki má gleyma að ég er búin að fá að vita hvar ég verð sem nemi og er hæstánægði með það allt saman. Ég verð á listasafni sem heitir Talbot Rice Gallery : http://www.trg.ed.ac.uk/ og tilheyrir háskólanum. Ég á reyndar eftir að heyra meira um hvernig þessu verður háttað en mér skilst að ég fái að kafa ofan í heim sýningarstjórans og verða Assistant to The Curator.... habbara sona !

Jæja segi ekki meir í bili og sendi bara bestu kveðjur á gamla Frón.
Hugs´n´kisses
Miss Margret