föstudagur, mars 30, 2007

Viti menn...

...bokasafnid bara svinvirkar! Her er madur bara eins og jardyta og rusla svoleidis fra mer afkostunum (tja, kannski svoldi ykt..en samt) Ekki thad ad mig hafi ekki grunad ad eg yrdi afkastameiri a bokasafninu heldur en heima (med litinn Turtles sitjandi ofan a skolabokunum)...en thad var bara svo erfitt ad komast af stad! Sem betur fer hafdist thad og her var eg til 18 i gaer og verd til 17 i dag...tok mer bara rett adeins sma oggulitla pasu til ad skrifa thessar linur ;)En jaeja afram skal haldid og jardytan sett i gang aftur...og verkefnid er ad skrifa 4000 thusund ord um thessa mynd:


Oja...4000 ord...allar hugmyndir vel thegnar, latid nu ljos ykkar skina og rignid yfir mig ordunum og utskyrungunum a myndinni :)
Bless i bili og bidst afsokunar a fjarveru islenskra stafa
Magga bokasafns-nerd

miðvikudagur, mars 28, 2007

Ja hérna hér...

...ekki fékk nú prumpugrínið miklar undirtektir...mar er bara ekki að standa sig í þessu ;) Ojæja, dveljum ekki meir við það...

Við fórum sem sagt út að borða á föstudagskvöldið og það lukkaðist bara rosa vel. Unginn stóð sig eins og hetja, var eins rólegur og hægt er að búast við af "næstum-fjögurra-ára" manni með mikla hreyfiþörf. Og borðhaldið tók nú líka næstum fjóra tíma...þvílíkur prósess. En þetta var voða gaman og skemmtileg upplifun. Ég ætla ekkert að lýsa því frekar hér, ef einhverjum langar til að lesa frekar um Hotpot-kvöldið er hægt að kíkja á síðustu dagbókarfærslu á síðunni hans Elvars. En ég læt nokkrar myndir fljóta hér með.


Þetta verður því bara frekar stutt og innihaldslítil færsla, er frekar tóm akkúrat núna enda búin að sitja og horfa á tölvuna í dag...og ekkert gerist...ritgerðin skrifast ekki við það :( Það endaði með að við skelltum okkur bara í bíó klukkan sex...þýddi ekki að stara lengur á tölvuótætið. Og það var bara ansi hressandi, fórum að sjá Hot Fuzz (sömu gæjar og gerðu Shaun of the Dead)...mjög fyndin og alger steypa. Jæja, á morgun er svo ætlunin að arka á bókasafnið og athuga hvort afköstin verða betri.

Bless í bili
Magga "með-ritstíflu-á-háu-stigi!"

föstudagur, mars 23, 2007

Í fréttum er þetta helst....

"Maður rekinn út af krá!...fyrir að prumpa!" Já allt ratar nú í blöðin þessa dagana...ég rak augun í þessa markverðu frétt í metro-blaðinu í morgun. Ég átti nú bágt með að skella ekki uppúr og í smástund hvarflaði að mér hvort tíminn væri búinn að líða svona hratt og það væri kominn 1. apríl! En nei, svo er nú ekki. Aumingjans maðurinn sat sem sagt í mesta sakleysi á kránni með öllarann sinn og verður á að leysa vind með þessum svakalegu afleiðingum. Kráareigandinn vildi reyndar meina að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem maðurinn gerði þetta og öðrum viðskiptavinum yrði bara hálf-leitt af fýlunni...og það sem verra væri þá hefði maðurinn bara hreykt sér af þessum vindgangi og umstanginu sem skapaðist í kringum það. Það varð því úr að hann var bara settur á bannlista og fær víst aldrei að stíga fæti þar inn. Að sjálfsögðu tjáði maðurinn sig um þetta máli (og lét nafns síns getið) og hann var nú bara miður sín út af þessu, fannst þetta ekkert fyndið..það væri jú náttúrulegt að leysa vind! Greinilega uppfullur af heilagri reiði ásamt því að vera fullur af vind ;)Hann taldi nú að þetta væri allt bévítans reykingarbanninu að kenna, því að fólk hefði aldrei tekið eftir hans vind-leysingum á meðan kráinn var full af reyk...og tók það fram að ekki hefði HANN kvartað yfir sígarettureyknum þeirra!

Já misjafnt er á okkur mennina lagt, á meðan sumir standa í stríði um vindgang eiga aðrir annarskonar vandræði að etja. En það kom fram að maðurinn ynni við að raða í hillur í lúxus búðinni Harvey Nichols, spurning hvort það sé vindasamt þar innan um allt fína fólkið....ég ætti kannski að gera mér ferð þangað ;)


Annars er nú bara allt gott af okkur að frétta. Síðan síðast var ritað er búið að vera nóg að gera. Ég skellti mér út á lífið með skólafélugunum síðasta föstudag og átti góða kvöldstund með þeim. Vorönninn kláraðist svo formlega í gær og við taka ritgerðir og meiri ritgerðir...mikið stuð framundan. Kallarnir mínir ætla að reyna að vera duglegir að finna sér eitthvað til dundurs á meðan ég grúska í bókunum og sem betur fer virðist nú vorið hafa snúið til baka, svo það er allavega skemmtilegra fyrir þá að fá sér hjólreiðatúra um borgina.

Við erum að fara út að borða í kvöld, á kínverskan veitingastað með kínverskri stelpu úr skólanum ásamt tveimur vinkonum hennar frá Kóreu. Stubbur litli kemur að sjálfsögðu með og erum við svona aðeins búin að leggja honum lífsreglurnar um hvernig eigi að haga sér á veitingastöðum ;) Við buðum nefnilega þessari stelpu í mat um daginn og einkasonurinn var nú ekki alveg með bestu borðsiðina...átti erfitt með að sitja kyrr og ropaði hátt og rækilega (hvaðan skyldi hann hafa það hmmm). Komandi úr stífu kommúnista-uppeldi hefur henni sennilega ekki alveg þótt þetta til fyrirmyndar, þótt ekki hafi hún gefið neitt í skyn. Tja reyndar spurði hún mig þegar ég hitt hana næst hvernig strákuinn hefði það og hvort hann væri enn "Naughty", haha...já, hann á það til blessaður að vera svoldið naughty ;) Sjáum hvernig fer í kvöld, hvort okkur verður nokkuð hent út fyrir óspektir...

Segjum þetta gott í bili, eigið góða helgi <3

mánudagur, mars 12, 2007

Af sleikjópinnum og tannstönglum...

...já við hjónin gerðumst svo menningarleg að fara að sjá Svanavatnið á föstudagskvöldið. Á meðan fékk unginn okkar að gleðja Hildi og strákana með nærveru sinni ;)

Þetta var nú bara hin prýðilegasta skemmtun, þó ég verði að viðurkenna að ég hafði smá samviskubit yfir að draga Arnar greyið með mér. Ég hef alltaf haft einhvern "soft-spot" fyrir ballet, held að það stafi helst af æskudraumum mínum um að verða ballerína, draumar sem rættust ekki...að stærstum hluta til vegna þess að í Dýrafirðinum var lítið um balletkennslu. Ég var eitthvað að rifja upp þessa drauma í hléinu á föstudagskvöldið og þá benti Arnar mér réttilega á að ég hef ekkert (eða lélegt jafnvægisskyn) og gæti því sennilegast ekki tekið neina snúninga eða snúningsstökk...myndi sennilega enda út í vegg eða skella kylliflöt á gólfið. Það hristi mig allhressilega úr angurværum ballerínudraumum að rifja upp þegar ég var að taka þátt í leik út í Gröf þar sem hlaupa á í kringum prik tíu sinnum og hlaupa svo beint áfram...ég var með Hnikarri í liði og eftir tvo hringi þurfti hann að ýta mér áfram svo ég næði að klára...þegar ég átti svo að hlaupa beint áfram, snarringluð, gat ég tekið tvö skref "áfram" áður en ég skall harkalega í jörðina, nánast eins og fótunum hefði verið kippt undan mér. Að yfirfæra þessa mynd upp á svið í ballerínubúning er ekki mjög tignarlegt og kannski bara best að láta Nadezhdu Schepachiovu um þetta.

Ég fór með mömmu að sjá Svanavatnið fyrir ca. 15 árum heima á Íslandi og í minningunni var þetta mjög skemmtilegt. Ég var samt hálf svartsýn þegar síga tók á fyrsta hluta, fannst þetta eiginlega hálf-kjánalegt...og það er eiginlega bara mjög kjánalegt að sjá stinna karlmannsrassa (pardon my french) í verulega þröngum spandexbuxum, með settið sitt vel uppraðað (again: pardon my french). Þegar ég tók svo eftir einum karakternum sem sinnti hlutverki ráðgjafa prinsins átti ég mjög erfitt með að verjast hlátri...hann var ALVEG eins og Sigurjón Kjartansson!!! Hæðin, andlitið...alger tvífari! Hann minnti mig skemtilega á einn karakterinn úr Fóstbræðrum, sællar minningar....ég beið alltaf eftir að þessi segði eitthvað fyndið..sem hann gerði nú ekki blessaður. Þetta sýnir kannski bara hve þroskuð ég er...ekki alveg komin á ballet/sinfóníu/óperu-stigið enn ;) En þetta var nú ekki allt í þessa áttina, strax í 2. hluta fór ég að njóta þess og ekki síst vegna tónverksins, Svanavatn Tchaikovskys er ótrúlega fallegt. Við Arnar vorum á sömu skoðun um það, þegar við gengum út, að við ætluðum kannski ekki að eltast við balletsýningar í framtíðinni en að þetta hefði verið fín upplifun.

Og að öðru, sem tengist þessu nú samt...hvað er málið með size zero? Mér finnst ég varla opna glanstímarit eða aðra miðla án þess að sjá tannstöngla og sleikipinna í tískufötum, Victoria Beckham virðist vera að deyja úr hor og það sama má segja um ansi margar stjörnur. Þær virðast allar fá þessa sömu bráðsmitandi bakteríu blessaðar. Meira að segja Kate Winslet sem hefur fengið hrós fyrir heilbrigðan vöxt hefur viðurkennt að hafa skellt sér í megrun. Elizabeth Hurley notaðist við "hellismanna" megrun sem miðast við að borða eina máltíð á dag og ekkert eftir 16 á daginn...til þess að komast í brúðarkjólinn! Nú nýverið var sýndur hér heimildarþáttur þar sem kona (var einu sinni fræg) tók að sér að grenna sig niður í size zero og segist hún bara hafa verið vansæl og glorsoltinn allan tímann. Samverustundir fjölskyldunnar sem snerust oft í kringum kvöldmáltíðir guldu fyrir þetta allt saman, þar sem hún gat ekki setið við borðið og horft á aðra fjölskyldumeðlimi matast. Þetta er satt að segja eins og plága, allt í lagi að vilja halda sér í formi...en þegar maður getur talið beinin í rijakassanum á ballerínu upp á sviði er kannski fulllangt gengið! Sumar þeirra voru beinlínis eins og dansandi sleikjópinnar...kannski sætt í teiknimynd, en ekki í real life....

Ég mótmæli þessari þróun harðlega og ætla að taka mínu gömlu hetju, Wonderwoman, til fyrirmyndar, sem virðist fagna sínum kvenlegu línum ;)

föstudagur, mars 09, 2007

Gestagangur og meira stuð....


Hér er aldeilis búið að vera mikið stuð síðustu daga. Hrefna og Þröstur voru hjá okkur yfir helgina og áttum við frábæran tíma saman. Við fengum fínt veður yfir helgina og nýttum það til að fara m.a. í dýragarðinn, rúnta um borgina og auðvitað aðeins að sjoppa ;) Við fórum út að borða á The Outsider á föstudagskvöldinu og áttum mjög svo huggulega kvöldstund saman. Ekki var heldur slæmt að eiga góðir stundir saman á kvöldin...með bjór, Borat og nammi ;) Æðislegt að fá ykkur krúttin mín :*


Það er alltaf leiðinlegt að kveðja og ekki laust við að maður finni, á þeim stundum, til söknuðar eftir heimahögunum og þeim sem þar búa. Það er auðvitað svo margt sem gerist á þessum tíma sem við erum í burtu...En þessi tími líður nú hratt og nú er opinberlega byrjað að síga á seinnihluta þessarar dvalar, ekki nema tæpir 6 mánuðir þar til við förum heim....að hugsa sér! Ekki það að okkur þyrsti beint í að dvölinni ljúki, okkur líður eins og blómum í eggi hér. En á þessum mánuðum verður sennilega mikið að gera, margt framundan...úff, já maður er að sigla inn í heilmikinn ritgerðarpakka.


Við erum búin að vera sæmilega dugleg að "sósíalæsa" undanfarið, héldum partý hér um daginn fyrir bekkjarfélaga mína. Það lukkaðist assgoti vel, góð mæting og allir voða ánægðir með kvöldið. Í gær buðum við svo kínverskri bekkjarsystur minni í mat og áttum góða stund með henni. Alltaf gaman að kynnast nýju fólki og hún virtist spennt fyrir að koma til Íslands í heimsókn...þannig að við erum greinilega ágæt í að plögga landið, hehe. Á næstu helgi verður svo enn eitt partíið hjá þessum hóp...ég hef greinilega engan tíma til að læra!

En jæja, nóg um það. Ætla að reyna að nýta þennan dag vel...og já! svo erum við hjónin bara á leið á ballet í kvöld. Ætlum að sjá Svanavatnið...haldiði að maður sé dannaður!?!

Læt fljóta hér með eina mynd af bleikum runna, vorið virðist vera á næsta leiti!