þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Driving miss daisy....

Þá er annasöm vika að baki og önnur framundan. Annirnar í síðustu viku voru þó ekki af námslegum toga...við tókum nefnilega bílaleigubíl í þrjá daga og flökkuðum um. Við keyrðum m.a. upp að Loch Lomond og Loch Katrine á fimmtudeginum, þann daginn rigndi ansi mikið en það var samt æðislegt að sjá þessa staði. Verður án efa frábært að geta kíkt þangað aftur í sumar. Loch Lomond er frekar stórt vatn og langt en það er næstum því hægt að keyra í kringum það allt og hér og þar má finna sumardvalarstaði, þar sem hægt er að leigja sumarbústaði eða hjólhýsi. Loch Katrine er aðeins norðar og lengra inn í hálöndin og öllu minna en Loch Lomond. Það er ótrúlega fallegt þar og vatnið er frekar afgirt háum klettum svo ekki er hægt að keyra í kringum það.

Á föstudeginum keyrðum við upp í Fife sem er hér norðan við Edinborg. Þar eru fullt af litlum bæjum, misfallegum og mis-áhugaverðum. Við stoppuðum í nokkrum og fundum fallegar gönguleiðir, fallega strönd og litlum þröngum götum. Þetta svæði kallast East-Neuk og er frekar vinsælt ferðamannasvæði á sumrin. Ég er farin að sjá það að ég hef engan tíma til að skrifa lokaritgerðina í sumar...ég þarf að hafa tíma til að flakka um og skoða landið :)

Laugardagurinn fór líka í flakk og byrjuðum við á að fara með Elvar í afmæli til Frasers vinars síns. Þegar þangað var komið sagði mamman okkur að við mættum bara fara og koma aftur kl. þrjú...og við nýttum þann tíma í að rúnta um borgina. Elvar skemmti sér konunglega í afmælinu enda ekki oft sem hann fer í barnaafmæli þessa dagana. Eftir afmælið fórum við í Deep Sea World og buðum Danna og Gísla með. Það má því segja að bíllinn hafi verið vel nýttur og mikil eftirsjá að þurfa að skila honum á sunnudagsmorgun...Svona ævintýri kostar nú skildinginn en er vel þess virði ef manni langar að gera sér dagamun :)

En já nú tekur sem sagt alvaran við, mikill lestur þessa vikuna og styttist í að þessi önn endi...herregud, hvað tíminn líður hratt! Ég hitti prófessorinn í gær, sem ætlar að leiðbeina mér með lokaritgerðina, og sé að ég á feykinóg fyrir höndum. Spurning um að fara að skipuleggja sig eitthvað....verst að hafa ósköp lítið af skipulagningarhæfileikum !?!

Svo virðiðst vorið vera hér alveg á næsta leiti, ótrúlega gott veður í dag...sól og blíða. Ég vona bara að blíðan haldist fram í næstu viku svo Hrefna og Þröstur fái að njóta hennar, en þau verða hjá okkur frá fimmtudegi til sunnudegi. Hlökkum til að fá ykkur! :*

Knús og kossar frá Edinborgurum...

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Hádídú...

Afskaplega er maður lélegur í þessu bloggelsi, ja hérna hér. En nú skal bætt úr því...
Þessa vikuna er ég lestrarfríi og er afskaplega fegin því. Kærkomið að fá smá svigrúm til að gera eitthvað skemmtilegt...og auðvitað að lesa heilmikið (hu hummm).
Það sem af er höfum við verið ansi aktíf....byrjuðum á því að fara með Elvar á National Museum á laugardaginn. Við ákváðum að gera smá tilraun með hann, sjá hvort elsku barnið myndi nokkuð gera okkur gjaldþrota eftir að eyðileggja "priceless" gripi. En hann stóð sig svo vel og sýndi mikinn áhuga á öllu sem fyrir augu bar, sérstaklega sverðum, fjársjóðskistum og beinum. Eftir listasafnsferðina fórum við niðrí bæ á hollenska markaðinn og fengum okkur hollenskar vöfflur....

Við fórum í dagsferð til Glasgow á sunnudaginn, tókum lestina klukkan tíu og vorum komin rétt um ellefu til Glasgow. Þar eyddum við deginum í að rápa um borgina, kíktum aaaaðeins í búðir og höfðum það gott. Það er voða gaman að koma þarna og áberandi hvað borgin er miklu meiri stórborg en Edinborg. Við vorum búin að lesa einhvers staðar að gaman væri að kíkja á "kolaport" þeirra Glasgow búa, The Barras, sem er ekkert svo langt frá miðbænum. Ég sá fyrir mér að þarna væri hægt að gramsa og finna fullt af góssi en það runnu nú á mig tvær grímur þegar við nálguðumst svæðið....þvílíkt sem þetta var subbulegt. Markaðurinn stóðst engan veginn væntingarnar, bara fullt af drasli og fake dóti..fuss og svei. Arnar hafði það á orði að þetta minnti hann á stræti Kosovo og Skopje, sem sagt frekar sjoppulegt. Við snerum því til baka hið snarasta og flýðum á vit fínni verslanna og bygginga.



Ég hefði nú alveg viljað ná að skella mér á nokkur listasöfn þarna enda af nógu að taka og nútímalistasafnið (GoMA) er alveg í miðbænum. En slík menningarferð hefði sennilega ekki átt upp á pallborðið hjá ungum manni...og bíður því betri tíma ;) Við enduðum ferðina á að fara á Fridays og tókum svo lestina heim klukkan hálfníu...


Í gær var hálfrigningarlegt hér í borg og stefndi allt í að við myndum liggja í leti í sófanum, en Elvar er ekkert á leikskólanum á mánudögum. Sem betur fer fékk ég einhverja ofvirkni í mig og dreif okkur í fjöruferð. Arnar var heima að taka til þannig að við mæðginin skemmtum okkur tvö á Portobello Beach. Við fengum bara ansi gott veður, rigndi ekkert á okkur og stubbur var með að geta hlaupið í sjávarmálinu og gruflað í sandi.

Dagurinn í dag fer sennilega í rólegheit, ætli maður myndist ekki við að lesa eitthvað. Svo erum við að gæla við að taka okkur bílaleigubíl í lok vikunnar og keyra aðeins um nærliggjandi sveitir. Vonum bara að veðurguðirnir verði í góðu skapi...

Meira af því síðar :)

p.s.
Við komumst sem sagt heil á húfi frá bæjarferðinni sem sagt var frá í síðustu færslu...rákumst ekkert á criminalinn sem gekk (gengur ?) laus (Taggart hefur greinilega staðið sig) og fengum einn þann besta kjúklingarétt sem ég hef bragðað á The Villager.

föstudagur, febrúar 02, 2007

"Við ætlum út í kvöld..."

Föstudagskvöld, barnið á leið í pössun og við á leið út að borða. Ætlum að prufa nýjan stað sem við rákumst á um daginn, The Villager...leit út fyrir að vera nokkuð töff og ferskur. Samkvæmt umtali er þetta nokkuð vinsæll staður og oftast vel bókaður þannig að ég hlakka til að sjá hvort hann stendur undir væntingum...

En já, ég er sem sagt bara í mestu makindum að hafa mig til fyrir útstáelsið og rétt kíki í tölvuna (bara aðeins) og rekst þá bara á frétt um að dæmdur morðingi hafi sloppið af geðdeild hérna í gær...hvaaa? Og ekki nóg með það heldur sást hann ásamt kærustunni síðast stefna hér að Morningside Road, sem er nú barasta næsta gata við mig. Ja hérna hér, maður ætti kannski bara að vera heima í kvöld ? Ha ? Og hvar er Taggart þegar á honum er þörf !!!

Hér er æsifréttin, fyrir þá sem vilja á hana kíkja...ég ætla að halda áfram að hafa mig til... :-O