föstudagur, ágúst 31, 2007

Sumarið sem hvarf...

...þá er komið að því. Hér sit ég á hótelherbergi í Glasgow, síðasta kvöldið mitt í Skotlandi, allavega sem íbúi þessa lands. Þetta sumar fór algerlega framhjá mér í loftköstum, veit eiginlega ekki hvað varð af því??? Kannski helst vegna ritgerða-anna, en líka vegna þess að hér í Skotlandi er varla búið að vera neitt sumar. Þannig að nú er komið að því, þetta ár er liðið og eftir sitjum við, den lille familie, reynslunni ríkari og afskaplega sátt. Þetta hefur verið frábær reynsla í alla stað, fyrir okkur persónulega og fyrir mig "professionally", við höfum kynnst fullt af skemmtilegu fólki og litli stubburinn okkar talar ensku eins og innfæddur (jaa allt að því). Við Arnar höfum síðustu daga verið afskaplega stolt af því að heyra hann tala og sjá hversu hratt honum hefur fleygt fram. Hann getur nú orðið léttilega haldið uppi samræðum og skilur mjög mikið. Og ekki er hann feiminn við að beita enskunni, við mæðginin brugðum okkur t.d í Jenners um daginn og tókum eftir því að verið var að tæma leikfangadeildina. Ég sagði Elvari að það væri kannski bara verið að loka henni og að hann yrði bara að spyrja starfsfólkið ef hann vildi nánari svör (og hann vill yfirleitt frekar ítarleg svör ;)). Minn maður vatt sér þá að búðarborðinu, beið lengi þolinmóður þar til kom að honum og sagði þá: "Excuse me, why are you closing?" Það er óhætt að segja að móðir hans missti andlitið af undrun yfir tungumálahæfni sonarins.

En já, síðustu dagarnir og vikurnar okkar hafa verið annasamar. Nóg að gera að pakka í skip og versla það sem versla þurfti (já þurfti!). Svo fengum við heimsókn frá Stínu og mömmu og skemmtum okkur með þeim í nokkra daga, við að versla og skoða okkur um. Við náðum sem betur fer að bregða okkur með þeim út úr bænum, brunuðum til North-Berwick sem er strandbær rétt fyrir utan Edinborg. Þar er afskaplega fallegt og þar fundum við líka fallegan kastala...Tantallon castle...mjög gaman að koma þangað.

Arnar brunaði svo til Immingham á þriðjudaginn með alla okkar kassa. Það gekk bara nokkuð vel að rusla þessu inn í bílinn á mánudagskvöldið, enda fékk hann hjálp frá þremur bakveikum kellingum ;) og einu 4 ára ofurmenni! Þetta var nú samt ansi mikið álag á kallinn, allur dagurinn fór í að keyra dótið enda er ca. 5 tíma leið til Immingham. En það hafðist og ég sendi hann í nudd daginn eftir...Dagarnir eftir þetta fóru svo í að pakka restinni af dótinu, sem var alltof mikil, og þrífa pleisið. Ég held nú að við höfum þrifið alltof vel, svona miðað við hvernig við tókum við 28 Blantyre Terrace síðasta haust...en kannski sem betur fer því akkúrat þennan dag var nýr starfsmaður að byrja hjá ALBA og kom hann með í house inspection-ið. Stúlkan sem átti að sjá um þetta hefði verið farin út eftir kortér, en ekki þessi nýi. Onei, hann var þvílíkt nákvæmur og hægfara að við sáum hana ranghvolfa augum af pirringi. En út sluppum við með alla okkar pinkla og hafurtask....ætla ekki að hafa eftir hve margar einingar þetta voru (erum sem sagt búin að fjárfesta í einni stórri tösku hér í Glasgow til að sameina draslið). Við brunuðum svo niður á Waverly til að fá að geyma töskurnar á meðan við hittum Rósu, Bigga og Bjarnheiði í lunch. Og jú, heppni okkar var þvílík að töskukallarnir rukkuðu 5.50 pund fyrir hverja tösku!!! og þá skipti engu hvort ein var snyrtitaska og sú næsta gímald, neibb, sama verð á allar. Okkur datt ekki í hug að borga svona mikið og völdum stærstu þrjár í geymsluna. Síðan skröltum við eins og verstu rónar með restina af töskunum, hlöðnum utan á kerruna hans Elvars, upp á Victoria Street. Þar áttum við góða stund á Howie´s, frábært að ná aðeins að anda í Edinborginni áður en við brunuðum til Glasgow.

Jæja, held þetta sé nú orðið ágætt og komin tími til að leggjast til hvílu. Það er skrýtin tilfinning í okkur hjónunum, áttum okkur eiginlega ekki á því að við séum að fara "for-good", erum bæði spennt og eilítið angurvær, það er jú búið að fara svo vel um okkur hér. En allt tekur enda og okkar bíða skemmtilegir tímar með fjölskyldu og vinum...við heimtum spilakvöld og endalausa hittinga!!!

Sjáumst fljótt!!!
Margret...signing out from Scotland....

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Done-dí-de-lí-done....



...já, þarna er hún blessunin, tilbúin. Hún hefur valdið mér þó nokkrum kvíða, svefntruflunum, bakverkjum og baugum niður á tær (ef einhvern tímann var þörf á að skella sér í facial, þá er það núna!). Þetta skiptir samt engu í dag þegar ég hef gripinn fyrir framan mig og veit að ég þarf ekki að hanga fram á nótt í tölvunni þessa nóttina! Karlarnir mínir eru líka ansi glaðir með þetta, það eru ófá skiptin sem stubbur hefur gólað á mömmu sína, eða staðið grátandi við gluggann og horft á mömmu sína ganga út götuna....á leið í skólann eða bókasafnið. Hann hefur oft á tíðum verið verulega fúll út í bókasafnið, skólann og þessa bévítanns kennara sem vildu að mamma mætti í tíma í stað þess að leika í playmo ;)...við fögnuðum deginum með því að hoppa í rúminu! Hinn karlinn minn hefur staðið með sinni kellu í gegnum þetta...lesið ritgerðina yfir og aðstoðað við tæknilegu hliðarnar. Ég vissi nú alltaf að ég væri vel gift...en maður má nú monta sig aðeins yfir manni sem nennir að sitja með manni langt fram á nótt og sjá um að yfirfara, setja upp heimildaskránna o.þ.h. Ótrúlegur tímasparnaður fyrir mig...og ekki verra að hann er ansi smámunasamur...tja, segjum frekar "fullkomnunar-sinni", þannig að það sem hann fer í gegnum fer frá honum í toppstandi :)

Jæja, ætla ekki að blaðra meira, er búin að sitja nóg við tölvuna og bakið mótmælir hástöfum. Svo er nú nóg af verkefnum, það þarf að pakka og þrífa...og knúsa kallinn sinn. Set hér eina mynd í lokin af hálsmeninu sem minn ektamann gaf mér í dag...ég er búin að mæna á það í glugganum hjá henni Rosie Brown í allan vetur :)

Knúskveðjur frá þreyttum en ofur-ánægðum námsmanni :*

mánudagur, ágúst 13, 2007

Life in the festival city....

Ósköp hefur nú lítið gerst hér undanfarið, og ágætis ástæður fyrir því. Tíminn svoleiðis rýkur frá okkur Edinborgurum þessa dagana...og eftir stöndum við og reynum í fáti að koma skipulagi á það sem okkur langar til að gera og það sem við þurfum að gera. Verst að væntingar og langanir fara ekki alltaf saman ;)

Ritgerðarskrif eru í góðum farveg, var að koma frá uppáhalds-prófessorinum mínum sem las fyrsta uppkast um helgina. Ég var nokkuð kvíðin fyrir fundinn, sá fyrir mér að hann væri bara búinn að tússa yfir allt með rauðu og ég þyfti að endurskrifa heilan helling. En sem betur fór ekki svo og hann var bara mjög jákvæður. Verst þótti mér að þetta er sennilega í síðasta skiptið sem ég hitti þennan mæta mann sem var frábært að fá að kynnast....

En nóg um það sem ég þarf að gera....þá er það sem mig langar að gera! Og það er að njóta alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða þessa dagana. Þvílíkt líf og þvílík mannmergð! Við höfum verið að skjótast af og til niður í bæ og það er sko alveg hægt að gleyma sér á Royal Mile við það eitt að horfa á mannlífið. Það úir og grúir af ferðamönnum, skemmtikröftum og "auglýsingadreifurum" ....varla hægt að komast tvö skref áfram án þess að vera komin með fullar hendur af miðum. Svo er ekki laust við að það þyrmi aðeins yfir mann yfir öllu framboðinu af atriðum og uppákomum. Við hjónin erum búin að sjá margt álitlegt og erum búin að ákveða að koma einhvern tímann hingað á festivalið...barnlaus :) og njóta þess að rápa um og stinga sér á eitthvað spennandi.

Við ætlum að reyna að komast á eitthvað áður en við förum, langar t.d. á japanskan trumbuslátt, starwars kómedíu, cirkus undir berum himni, barnaleikrit fyrir stubbamanninn...og auðvitað á tattoo-ið, sem uppseldist á í apríl. Nóg að gera sem sagt...fyrir utan að þurfa að klára ritgerð, pakka niður, þrífa hús, koma búslóð í skip....og kíkja í búðir...rétt aðeins að kíkja í búðirnar, kveðja þær og þakka góð viðkynni ;)

Stefnan er því þessi: klára ritgerðina í þessari viku og hafa þá tvær vikur í allt hitt. Svo eigum við von á gestum, mamma og Stína ætla að koma á fimmtudaginn í næstu viku....síðasta heimsóknin til okkar á Blantyre Terrace. Tja, nema einhver vilji skella sér ???

Segjum það gott í bili...og við ykkur sem ætlið að fjölmenna út á völl þann 2. september segi ég: Þið hafið 21 dag til að undirbúa ykkur!!!

Knús á línuna :*