föstudagur, ágúst 31, 2007

Sumarið sem hvarf...

...þá er komið að því. Hér sit ég á hótelherbergi í Glasgow, síðasta kvöldið mitt í Skotlandi, allavega sem íbúi þessa lands. Þetta sumar fór algerlega framhjá mér í loftköstum, veit eiginlega ekki hvað varð af því??? Kannski helst vegna ritgerða-anna, en líka vegna þess að hér í Skotlandi er varla búið að vera neitt sumar. Þannig að nú er komið að því, þetta ár er liðið og eftir sitjum við, den lille familie, reynslunni ríkari og afskaplega sátt. Þetta hefur verið frábær reynsla í alla stað, fyrir okkur persónulega og fyrir mig "professionally", við höfum kynnst fullt af skemmtilegu fólki og litli stubburinn okkar talar ensku eins og innfæddur (jaa allt að því). Við Arnar höfum síðustu daga verið afskaplega stolt af því að heyra hann tala og sjá hversu hratt honum hefur fleygt fram. Hann getur nú orðið léttilega haldið uppi samræðum og skilur mjög mikið. Og ekki er hann feiminn við að beita enskunni, við mæðginin brugðum okkur t.d í Jenners um daginn og tókum eftir því að verið var að tæma leikfangadeildina. Ég sagði Elvari að það væri kannski bara verið að loka henni og að hann yrði bara að spyrja starfsfólkið ef hann vildi nánari svör (og hann vill yfirleitt frekar ítarleg svör ;)). Minn maður vatt sér þá að búðarborðinu, beið lengi þolinmóður þar til kom að honum og sagði þá: "Excuse me, why are you closing?" Það er óhætt að segja að móðir hans missti andlitið af undrun yfir tungumálahæfni sonarins.

En já, síðustu dagarnir og vikurnar okkar hafa verið annasamar. Nóg að gera að pakka í skip og versla það sem versla þurfti (já þurfti!). Svo fengum við heimsókn frá Stínu og mömmu og skemmtum okkur með þeim í nokkra daga, við að versla og skoða okkur um. Við náðum sem betur fer að bregða okkur með þeim út úr bænum, brunuðum til North-Berwick sem er strandbær rétt fyrir utan Edinborg. Þar er afskaplega fallegt og þar fundum við líka fallegan kastala...Tantallon castle...mjög gaman að koma þangað.

Arnar brunaði svo til Immingham á þriðjudaginn með alla okkar kassa. Það gekk bara nokkuð vel að rusla þessu inn í bílinn á mánudagskvöldið, enda fékk hann hjálp frá þremur bakveikum kellingum ;) og einu 4 ára ofurmenni! Þetta var nú samt ansi mikið álag á kallinn, allur dagurinn fór í að keyra dótið enda er ca. 5 tíma leið til Immingham. En það hafðist og ég sendi hann í nudd daginn eftir...Dagarnir eftir þetta fóru svo í að pakka restinni af dótinu, sem var alltof mikil, og þrífa pleisið. Ég held nú að við höfum þrifið alltof vel, svona miðað við hvernig við tókum við 28 Blantyre Terrace síðasta haust...en kannski sem betur fer því akkúrat þennan dag var nýr starfsmaður að byrja hjá ALBA og kom hann með í house inspection-ið. Stúlkan sem átti að sjá um þetta hefði verið farin út eftir kortér, en ekki þessi nýi. Onei, hann var þvílíkt nákvæmur og hægfara að við sáum hana ranghvolfa augum af pirringi. En út sluppum við með alla okkar pinkla og hafurtask....ætla ekki að hafa eftir hve margar einingar þetta voru (erum sem sagt búin að fjárfesta í einni stórri tösku hér í Glasgow til að sameina draslið). Við brunuðum svo niður á Waverly til að fá að geyma töskurnar á meðan við hittum Rósu, Bigga og Bjarnheiði í lunch. Og jú, heppni okkar var þvílík að töskukallarnir rukkuðu 5.50 pund fyrir hverja tösku!!! og þá skipti engu hvort ein var snyrtitaska og sú næsta gímald, neibb, sama verð á allar. Okkur datt ekki í hug að borga svona mikið og völdum stærstu þrjár í geymsluna. Síðan skröltum við eins og verstu rónar með restina af töskunum, hlöðnum utan á kerruna hans Elvars, upp á Victoria Street. Þar áttum við góða stund á Howie´s, frábært að ná aðeins að anda í Edinborginni áður en við brunuðum til Glasgow.

Jæja, held þetta sé nú orðið ágætt og komin tími til að leggjast til hvílu. Það er skrýtin tilfinning í okkur hjónunum, áttum okkur eiginlega ekki á því að við séum að fara "for-good", erum bæði spennt og eilítið angurvær, það er jú búið að fara svo vel um okkur hér. En allt tekur enda og okkar bíða skemmtilegir tímar með fjölskyldu og vinum...við heimtum spilakvöld og endalausa hittinga!!!

Sjáumst fljótt!!!
Margret...signing out from Scotland....

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Done-dí-de-lí-done....



...já, þarna er hún blessunin, tilbúin. Hún hefur valdið mér þó nokkrum kvíða, svefntruflunum, bakverkjum og baugum niður á tær (ef einhvern tímann var þörf á að skella sér í facial, þá er það núna!). Þetta skiptir samt engu í dag þegar ég hef gripinn fyrir framan mig og veit að ég þarf ekki að hanga fram á nótt í tölvunni þessa nóttina! Karlarnir mínir eru líka ansi glaðir með þetta, það eru ófá skiptin sem stubbur hefur gólað á mömmu sína, eða staðið grátandi við gluggann og horft á mömmu sína ganga út götuna....á leið í skólann eða bókasafnið. Hann hefur oft á tíðum verið verulega fúll út í bókasafnið, skólann og þessa bévítanns kennara sem vildu að mamma mætti í tíma í stað þess að leika í playmo ;)...við fögnuðum deginum með því að hoppa í rúminu! Hinn karlinn minn hefur staðið með sinni kellu í gegnum þetta...lesið ritgerðina yfir og aðstoðað við tæknilegu hliðarnar. Ég vissi nú alltaf að ég væri vel gift...en maður má nú monta sig aðeins yfir manni sem nennir að sitja með manni langt fram á nótt og sjá um að yfirfara, setja upp heimildaskránna o.þ.h. Ótrúlegur tímasparnaður fyrir mig...og ekki verra að hann er ansi smámunasamur...tja, segjum frekar "fullkomnunar-sinni", þannig að það sem hann fer í gegnum fer frá honum í toppstandi :)

Jæja, ætla ekki að blaðra meira, er búin að sitja nóg við tölvuna og bakið mótmælir hástöfum. Svo er nú nóg af verkefnum, það þarf að pakka og þrífa...og knúsa kallinn sinn. Set hér eina mynd í lokin af hálsmeninu sem minn ektamann gaf mér í dag...ég er búin að mæna á það í glugganum hjá henni Rosie Brown í allan vetur :)

Knúskveðjur frá þreyttum en ofur-ánægðum námsmanni :*

mánudagur, ágúst 13, 2007

Life in the festival city....

Ósköp hefur nú lítið gerst hér undanfarið, og ágætis ástæður fyrir því. Tíminn svoleiðis rýkur frá okkur Edinborgurum þessa dagana...og eftir stöndum við og reynum í fáti að koma skipulagi á það sem okkur langar til að gera og það sem við þurfum að gera. Verst að væntingar og langanir fara ekki alltaf saman ;)

Ritgerðarskrif eru í góðum farveg, var að koma frá uppáhalds-prófessorinum mínum sem las fyrsta uppkast um helgina. Ég var nokkuð kvíðin fyrir fundinn, sá fyrir mér að hann væri bara búinn að tússa yfir allt með rauðu og ég þyfti að endurskrifa heilan helling. En sem betur fór ekki svo og hann var bara mjög jákvæður. Verst þótti mér að þetta er sennilega í síðasta skiptið sem ég hitti þennan mæta mann sem var frábært að fá að kynnast....

En nóg um það sem ég þarf að gera....þá er það sem mig langar að gera! Og það er að njóta alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða þessa dagana. Þvílíkt líf og þvílík mannmergð! Við höfum verið að skjótast af og til niður í bæ og það er sko alveg hægt að gleyma sér á Royal Mile við það eitt að horfa á mannlífið. Það úir og grúir af ferðamönnum, skemmtikröftum og "auglýsingadreifurum" ....varla hægt að komast tvö skref áfram án þess að vera komin með fullar hendur af miðum. Svo er ekki laust við að það þyrmi aðeins yfir mann yfir öllu framboðinu af atriðum og uppákomum. Við hjónin erum búin að sjá margt álitlegt og erum búin að ákveða að koma einhvern tímann hingað á festivalið...barnlaus :) og njóta þess að rápa um og stinga sér á eitthvað spennandi.

Við ætlum að reyna að komast á eitthvað áður en við förum, langar t.d. á japanskan trumbuslátt, starwars kómedíu, cirkus undir berum himni, barnaleikrit fyrir stubbamanninn...og auðvitað á tattoo-ið, sem uppseldist á í apríl. Nóg að gera sem sagt...fyrir utan að þurfa að klára ritgerð, pakka niður, þrífa hús, koma búslóð í skip....og kíkja í búðir...rétt aðeins að kíkja í búðirnar, kveðja þær og þakka góð viðkynni ;)

Stefnan er því þessi: klára ritgerðina í þessari viku og hafa þá tvær vikur í allt hitt. Svo eigum við von á gestum, mamma og Stína ætla að koma á fimmtudaginn í næstu viku....síðasta heimsóknin til okkar á Blantyre Terrace. Tja, nema einhver vilji skella sér ???

Segjum það gott í bili...og við ykkur sem ætlið að fjölmenna út á völl þann 2. september segi ég: Þið hafið 21 dag til að undirbúa ykkur!!!

Knús á línuna :*

fimmtudagur, júlí 26, 2007

"If it wisnae fur yer wellies...

...where wud ye be
ude be in the hospital
or infirmary
u wid have a dose aw the flu
or even pluracy
if ye dinnae hiv yer feet in yer wellies"
(lesist með Glasgow hreim)

Já, hér rignir enn...og öngvin á ég stígvélin!

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Gervihnattaöld...

...og tíminn líður hratt! Já það er að verða ansi raunverulegt hversu lítill tími er eftir hér í borg...og þá að sama skapi hve lítill tími er eftir í lokaskil. Á milli þess að hamast við að skrifa, eða hamast við að hugsa um að skrifa, flýgur í gegnum hugann allt sem mig langar að gera áður en ég fer heim...vona að ég nái að framkvæma eitthvað af því..

Skrifin eru í annars ágætis farveg, en komandi frá mér (manneskju með slæmt tímaskyn og öngva skipulagshæfileika!) segir það kannski ekki mikið. Ég gæti allt eins tekið upp á því á morgun að finnast ég á svo agalega góðu róli og ákveða í framhaldi af því að slappa vel af. Og vakna svo upp kortér í skil! Nei ég segi nú bara svona...Það heldur manni sem betur fer á réttum stað að hitta súpervæserinn reglulega, náttúrulega ekki hægt að mæta til hans með tvær hendur tómar. Talandi um það, þá er ég að fara að hitta hann á morgun og verð þá vonandi með ca. 7000 orð í farteskinu (teljast þessi orð ekki með???).

Annars skellti litla famelíið sér til Dublin um daginn, ég þurfti að fara að skoða handritið sem ég er að skrifa um og fékk meðfylgd frá herramönnunum mínum tveimur. Þetta reyndist hin besta ferð, ekki síst fyrir það að flugvélin lækkaði flugið og lenti svoo skömmu eftir flugtak að það tók því varla að fara á loft. Heimsókn mín á Chester Beatty Library-ið reyndist svo hin gagnlegasta og mjög svo áhugahvetjandi fyrir annars þreyttan lokaritgerðarskrifara. Ekki laust við að maður fynndi smá til sín að sitja inní virðulegu les-herbergi með handrit fyrir framan sig sem var myndskreytt fyrir einn af Ottoman soldánunum árið 1595. Jahh, enginn veit hvar hann dansar um næstu jól (eða eitthvað á þá leiðina)...ekki hefði mig grunað að ég ætti eftir að vera að grúska í þessum hlutum og hafa ánægju af...


Karlarnir mínir tveir reyndu að finna sér eitthvað til dundurs í Dyflinni á meðan ég grúskaði á safninu og voru bara nokk ánægðir með borgina. Við gætum vel hugsað okkur að koma þangað aftur og hefði ég þá hug að nýta mér þá fyrirtaks verslunaraðstöðu sem þarna finnst *he hemm*

Af fleiru er svo sem ekki að segja í bili...lífið snýst um skrif og grúsk, og meiri skrif...sinna snáða, einstaka kaffihúsahitting með skólafélugum og svo að reyna að drekka í sig Edinborgina fyrir brottför. Nú og ef þetta dugir ekki til að halda manni önnum köfnum þá er alltaf hægt að fara út að stappa í pollunum sem nóg er af!

Kossar frá Skotlandi...



p.s. og já, Hairy Larry er mættur aftur á svæðið! Spurning hvort maður þraukar í einn og hálfan mánuð eða leggur í aðra klippikonu....

mánudagur, júlí 02, 2007

"Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag..."


...(sungið með engilfagurri röddu) elskulegur eiginmaður minn á afmæli í dag. Þrjátíu og tveggja ára og alltaf jafn unglegur, tja...allavega í anda, hehe, og ég vil ekki meina að gráu hárin séu af mínum völdum (???).

Afmælisbarnið verður að heiman á afmælisdaginn, hyggst eyða þessum stóra degi með konu og barni niðrí bæ og snæða síðan ljúffengan kvölverð á Papilo á Bruntsfields Place ;)

miðvikudagur, júní 27, 2007

Sól og haglél...

...það hefur nú nokkrum sinnum gerst heima á Fróni að það bresti á haglél í júní. Ég minnist þess að vera að gróðursetja rósir í einhverri sumarvinnunni og fá yfir mig haglélsdembuna...en þá hefur nú hitastigið yfirleitt verið í samræmi við haglélið. Hér í Edinborg eru núna ca. 15 og hálf gráða og glittir í bláan himinn inn á milli hvítra skýjanna...ekki beint líklegt að fá yfir sig haglél. En rétt í þessu var nú samt að klárast slík demba, með nokkuð stórum élum...ja hérna hér, skrýtið veðurfar.

Annars er ég alveg farin að sjá kaldhæðnina í veðrinu hér. Síðasta sumar heima á Íslandi var vægast sagt ömurlegt (er nokkur búin að gleyma því??) og það var eitt af því sem gerði ákvarðanatökuna um brottflutninga léttari. Nú finnst mér eins og veðurguðirnir séu aðeins að núa mér því um nasir og sýna mér að grasið er ekki alltaf grænna hinu meginn við lækinn...því veðrið hér hefur verið frekar leiðinlegt undanfarið. Einhvers staðar hefur pöntunin mín um "Geggjað útlandaveðurs sumar" farið á flakk í kerfinu hjá þeim. Það verður samt að segjast að þegar sólardagarnir koma eru þeir ansi heitir og góðir...

Nóg um veðrið...Af okkur er bara allt fínt að frétta og hlutirnir í svona nokkuð réttum farveg. Stubbur er farinn aftur á leikskólann eftir viku inniveru...þeir feðgar voru komnir með cabin-fever á háu stigi undir lokin. Við höfum verið dugleg að social-læsa undanfarið (að hugsa sé, félagsbælda fólkið!). Við fórum á 17. júní hjá Íslendingafélaginu og áttum þar mjög góðan dag. Á síðasta sunnudag buðum við heim í afmælisveislu fyrir stubb og þar komu þrjár íslenskar prinessur til að fagna með prinsinum og hann var að vonum kátur með daginn. Í gærkvöldi buðu Rósa, Biggi og Bjarnheiður okkur í mat til sín og dagskráin átti að vera á þessa leið: matur, súkkulaðigosbrunnur og spil....en við komumst aldrei lengra en í súkkulaðigosbrunninn! Við festumst algerlega þar við að dýfa ávöxtum í gómsætt súkkulaðið og spilið fór ekki einu sinni upp úr pokanum ;)

Ég hef líka eitthvað verið að dunda mér við að hitta skólafélagana inn á milli skrifta. Kínverska vinkona mín bauð mér til sín í kvöldmat og eldaði hún fyrir mig fínindis kínverskan mat. Það var skemmtileg upplifun að koma til hennar því hún býr í háskólahúsnæði þar sem hver hefur sér herbergi en sameiginlegt eldhús og stofu með öðrum. Á hæðinni hennar búa 7 kínverskar og ein frá Kóreu og þær voru flestar að elda eitthvað gómsæti þegar ég kom þangað...mjög gaman að fylgjast með þeim og auðvitað fékk ég að smakka hitt og þetta :P

Á mánudaginn fór ég með nokkrum úr skólanum á pubquiz. Þetta fyrirbæri er nokkuð algengt, en þetta er spurningakeppni á pöbbinum þar sem fólk hópar sig saman og glímir við alls kyns spurningar og auðvitað vinningar í boði. Við unnum í þetta skiptið, hvítvínsflösku sem var náttúrulega stútað um leið...

Jæja...þetta er farið að hljóma eins og ég geri ekki annað en að skemmta mér og vanræki lærdóminn! Ég? Never !!!

Bestu kveðjur heim á Frón...þar sem ég er viss um að sólin er að bræða alla í fjarveru minni..njótið vel ;)