þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Hér hefur nú heldur lítið gerst undanfarið, mætti halda að það hafi bara ekkert gerst í sumar...sem er svo sem kannski rétt, allavega framanaf sumri. Fyrrihluti sumars fór nefnilega í það að fylgjast með veðurfréttunum, safna kílóum og bölva veðurfréttunum...eða öllu heldur veðrinu. Einstaka sinnum var nú samt hægt að hlæja að veðurfréttunum þegar veðurkonan gerði eitthvað fyndið og klúðurslegt (uss skamm bara, að hlæja að grey-konunni). En já, þetta veðurfar sem okkur hefur verið boðið upp á hér í sumar lagðist frekar mikið á geðið hjá mér og þegar ekkert útlit var fyrir strandhögg okkar í veldi skota fannst mér frekar dapurleg tilhugsun að dvelja á klakanum næsta árið.

Ég hefði nú ekki láð eiginmanninum það að fá sér annaðhvort viðhald eða leiguíbúð til að flýja fýluna í mér en hann lét sig hafa þetta. Jæja svo kom nú loks blessað bréfið frá Edinborgarháskóla um að ég mætti nema þar, sem óneitanlega gladdi mitt geð en um leið fannst mér frekar frústrerandi að ætla að hafna þessu boði. Það var svo fyrir tilstilli hennar múttu sem strandhöggsplönin voru tekin aftur upp, henni fannst ekki hægt að láta þetta fara framhjá sér...eða framhjá mér öllu heldur.

Og það er eins og allt leggist á eitt um að hlutirnir gangi upp eftir að svona ákvörðun er tekin, allavega í okkar tilviki. Þannig að nú erum við á leið til Edinborgar þann 1. september og pökkun innbús í fullum gangi. Við erum búin að fá krúttlega íbúð á góðum stað (með Hildi mágkonu og guttana hennar í næsta nágrenni) og Arnar er kominn með fjarvinnu. Nú er bara að krossleggja fingur um að íbúðin okkar seljist og einnig bíllinn...helst bara kviss bang! því það er ekki svo langt í brottför. En ég er bjartsýn á þetta allt saman enda nýbúin að lesa Alkemistann og hef tröllatrú á því að alheimsvaldið leggist á eitt um að hlutirnir gangi upp þegar fólk er að eltast við drauma sína...og það er einmitt það sem við erum að gera ;)

Jæja nóg í bili...best að halda áfram að pakka og sortera.
Miss Margrét

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home